Sveitarfélögin sem eiga ósamið við Eflingu, þar á meðal Kópavogsbær, hafa hafnað að veita starfsfólki sínu sambærilega kjaraleiðréttingu og þá sem Efling hefur samið um við Reykjavíkurborg og ríkið.
Í samningi Eflingar við Reykjavíkurborg var samið um grunnlaunahækkanir umfram Lífskjarasamninginn um að meðaltali 7.800 krónur og sérstaka leiðréttingu lægstu launa í formi aukagreiðslu. Í samningi Eflingar við ríkið er svigrúm til sérstakrar leiðréttingar á kjörum félagsmanna, sem flestir vinna á Landspítalanum.
Á samningafundi í dag fyrir hádegi hafnaði samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga alfarið að útfæra sams konar leiðréttingu fyrir félagsmenn Eflingar sem starfa hjá Kópavogsbæ, Seltjarnarsbæ og öðrum sveitarfélögum í nágrenni Reykjavíkur.
Eflingarfélagar hjá þessum sveitarfélögum vinna láglaunastörf og sögulega vanmetin kvennastörf, flest við umönnun, þrif, þvotta og í eldhúsum og mötuneytum. Mikið mun mæða á þessum störfum á næstu vikum og mánuðum vegna Covid-19 faraldursins.
Á fundinum lýsti Efling vilja til að útfæra ríkis- og borgarleiðréttinguna með tilliti til launatöflu sveitarfélaganna og til að hlýða á gagntilboð. Var því hafnað.
Efling kom á framfæri hvatningu til sveitarfélaganna að endurskoða afstöðu sína og kallaði eftir að fundað yrði aftur í deilunni strax eftir hádegi. Tími fyrir annan fund hefur ekki verið ákveðinn.
Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri í Kópavogi, þar sem langflestir Eflingarfélagar undir sveitarfélagasamningum starfa, hefur neitað að ræða við fulltrúa Eflingar þrátt fyrir óskir þar um.
Verkfallsaðgerðir Eflingar hafa leitt til lokunar á grunnskólum í Kópavogi auk lokana og skertrar þjónustu á fleiri stofnunum sveitarfélaga.
Óvíst er hvenær fundað verður næst í deilunni. Fimm dagar liðu milli síðustu tveggja funda að kröfu Sambands íslenskra sveitarfélaga.