Quantcast
Channel: Efling stéttarfélag
Viewing all 1269 articles
Browse latest View live

Rangmæli Fréttablaðsins

$
0
0

Samtök atvinnulífsins og leiðarahöfundar Fréttablaðsins hafa farið offari í árásum á kröfugerð verkalýðshreyfingarinnar um hríð. Talað er um 60% til 85% hækkun launa hjá „fyrirtækjum í landinu“ og kennt við „sturlun“ og önnur álíka einkenni.

Allt er þetta fjarri lagi. Kröfurnar eru mun nær því að vera hóflegar og ábyrgar en hækkun bankastjóralauna og toppanna í samfélaginu á síðustu árum.

Kröfur Eflingar og Starfsgreinasambandsins eru um flata krónutöluhækkun ofan á greidd grunnlaun, meðal annars lágmarkslaunatrygginguna sem er nú 300.000 kr. á mánuði. Það þýðir að meðalhækkun launa yfir línuna í atvinnulífinu er mun minni að meðaltali en hækkun lægstu launa. Prósentuhækkun launa verður fallandi þegar sama krónutala kemur ofan á hærri laun.

Sjá nánari útlistun á samningar2019.is


Verkfall 8. mars – praktískar upplýsingar

$
0
0

Allir félagsmenn í Eflingu sem starfa við þrif, hreingerningar og frágang herbergja á hótelum og gistihúsum í Reykjavík taka þátt í vinnustöðvuninni.

Vinnustöðvun þarf að vera samþykkt af félagsmönnum. Atkvæðagreiðsla hefst kl. 10.00 að morgni mánudags 25.2 2019 og lýkur kl. 22.00, fimmtudaginn 28.2 2019.

Vinnustöðvun verður tímabundin og hefst klukkan 10.00 að morgni 8. mars 2019 og lýkur klukkan 23.59 þann 8. mars 2019 nema kjarasamningar hafi tekist fyrir þann tíma.

Bækistöðvar Eflingar verkfallsdaginn verða í Gamla bíó, Ingólfsstræti 2a, 101 Reykjavík. Þar tekur starfsfólk Eflingar vel á móti félagsmönnum.

Verkfallsgreiðslur eru 12.000 kr. fyrir skatt. Félagsmenn í verkfalli eru beðnir að skrá sig fyrir greiðslu hjá starfsfólki Eflingar í Gamla Bíó.

Nánari upplýsingar um dagskrá um tilhögun atkvæðagreiðslu verða birtar hér á vefnum næstu daga.

Skertur trúverðugleiki Samtaka atvinnulífsins

$
0
0

Efling – stéttarfélag lýsir undrun og vonbrigðum vegna villandi umfjöllunar Samtaka atvinnulífsins um launakröfur verkalýðsfélaga. Ekki er hægt að álykta annað en að um vísvitandi blekkingar sé að ræða, til þess fallnar að rýra traust milli viðsemjenda. Enn fremur hlýtur slíkur málflutningur að vekja stórar spurningar um trúverðugleika Samtaka atvinnulífsins í allri opinberri umræðu.

Frétt á heimasíðu Samtaka atvinnulífsins dags. 22. febrúar 2019 ber titilinn „Kröfur Eflingar um launahækkanir“. Í fréttinni er sú hækkun byrjunarlauna sem verkalýðsfélögin hafa krafist (425 þúsund) færð inn í nýja launatöflu og sú launatafla svo borin saman við núgildandi launatöflu. Leikurinn virðist til þess gerður að geta sýnt fram á að kröfur Eflingar feli í sér óhóflegar launahækkanir og hlutfallslega hæstar á jöðrum launatöflunnar. Þessi aðferð er byggð á fúski.

Í umræddri frétt samtakanna er að finna mynd sem ber titilinn „Launatafla miðað við kröfugerð Eflingar“. Þessi framsetning stenst enga skoðun, enda er hvergi í kröfugerð Eflingar sett fram útfærð tillaga að breyttri launatöflu. Rétt er að í viðræðum SA við SGS fyrr í vetur voru ræddar hugmyndir um breytt hlutföll innan launatöflu og tiltekin útfærsla á nýrri 10 flokka töflu lögð fram. Sú launatafla er ekki hluti af kröfugerð Eflingar og hefur aldrei borið á góma í viðræðum eftir að Efling dró samningsumboð sitt til baka frá SGS. Samtök atvinnulífsins kenna þessa framsetningu ranglega og gegn betri vitund við „kröfur Eflingar“ fremur en að viðurkenna að framsetningin er byggð á hugmyndum sem standa utan kröfugerðar og voru settar fram af Starfsgreinasambandinu.

Efling ítrekar að krafa félagsins er sú að launafólk geti lifað lægstu lágmarkslaunum. Er þess krafist að lágmarkslaun hækki á samningstímanum upp í 425 þúsund á mánuði. Þess er krafist að hækkanir lægstu launa séu í forgangi og að krónutöluhækkanir verði almenn regla. Þessar áherslur voru endurspeglaðar með skýrum hætti í gagntilboði sem Efling lagði fram ásamt samflotsfélögum til SA þann 15. febrúar síðastliðinn. Stefán Ólafsson, sérfræðingur hjá Eflingu, hefur lýst inntaki gagntilboðsins á skilmerkilegan hátt í nýlegum pistli.

Samtök atvinnulífsins eru vel upplýst um hverjar kröfur Eflingar í yfirstandandi kjaraviðræðum eru, enda hafa þær ýmist legið fyrir opinberlega eða verið kynntar fyrir samtökunum með skýrum hætti á samningafundum í vitna viðurvist. Efling biður Samtök atvinnulífsins þess lengstra orða að rýra ekki eigin trúverðugleika og þar með kjarasamningaferlisins í heild með rangfærslum um afstöðu viðsemjenda. Efling krefst þess enn fremur að Samtök atvinnulífsins birti opinbera leiðréttingu á því sem ranglega er hermt upp á „kröfugerð Eflingar“.

Líf á lægstu launum og Fólkið í Eflingu hljóta viðurkenningu

$
0
0

Fjölmiðlaverðlaun götunnar voru veitt í þriðja sinn sl. föstudag við hátíðlega athöfn í húsnæði Hjálpræðishersins. En þau eru veitt blaða- frétta- og fjölmiðlafólki fyrir málefnalegar og góðar umfjallanir um fátækt á Íslandi á árinu 2018.

Alda Lóa Leifsdóttir, blaðamaður, Sverrir Björnsson ráðgjafi, og auglýsingastofan Kontór hlutu viðurkenningu fyrir fyrir herferð Eflingar Líf á lægstu laununum.

Herferðin dregur upp raunsanna mynd af raunverulegum aðstæðum fólks sem býr við þann „ómöguleika“ að lifa af lægstu launum og lykilstaðreyndir um kjör og skattbyrði launafólks.

Þá hlaut Alda Lóa viðurkenningu fyrir vefsíðuna Fólkið í Eflingu þar sem er að finna tugi stuttra frásagna fólksins í Eflingu. Sögurnar hafa vakið mikla athygli og eiga sinn þátt í að efla vitund félagsmanna og styðja sókn til bættra kjara og aukins réttlætis í samfélaginu.

Á mynd má sjá Öldu Lóu, Sverri og Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar að afhendingu lokinni.

Fjölmiðlaverðlaun götunnar eru samstarfsverkefni EAPN og Pepp-samtaka nokkurra Evrópulanda og er verkefnið unnið að fyrirmynd systursamtaka í Austurríki, Die Armutskonferenz, sem hefur veitt samskonar verðlaun frá árinu 2011. Verkefnið heitir á frummálinu Journalismuspreis “von unten” (Journalism Prize from below, á ensku), sem hefur verið þýtt sem „Fjölmiðlaverðlaun götunnar“ þar sem það fellur að íslenskri málvenju.

Markmið verðlaunanna er að efla málefnalega umræðu um fátækt á Íslandi. Verðlaunin eru táknræns eðlis og eru viðurkenning fyrir það fjölmiðla-, blaða- og fréttafólk sem sinnir málstaðnum af kostgæfni og virðingu.

Hér má nálgast lista yfir tilnefningar.

Að fá athygli – skapandi skrif

$
0
0

Viltu koma þekkingu þinni og viðhorfum á framfæri í rituðu máli. Námskeiðið Að fá athygli – skapandi skrif er í formi fyrirlestra en snýst þó einkum um stuttar ritunaræfingar sem lagðar eru fyrir þátttakendur og umræður um þær. Markmiðið með námskeiðinu er að þátttakendur læri að skrifa betri greinar og færslur og verði dómbærari á skrif annarra og meðvitaðri um eigin skoðanaskrif, fái tækifæri til að endurspegla viðfangsefni sín og efnistök í öðru fólki og fræðist um ólíkar leiðir til að skrifa og birta skrif sín.

Námskeiðið er félagsmönnum að kostnaðarlausu.

Leiðbeinandi: Björg Árnadóttir, rithöfundur, blaðamaður og ritlistakennari

Kennt er í þrjú skipti, mið. 13. mars, þri. 19. mars og fim. 21. mars. kl. 18-21

Skráningarfrestur er til og með 8. mars.

Kennsla fer fram hjá Eflingu-stéttarfélagi, Sætúni /Guðrúnartúni 1, 4. hæð.

Skráning í s. 510 7500 eða á netfangið efling@efling.is

Opnunartími skrifstofu á mánudaginn

$
0
0

Mánudaginn 4. mars opnar skrifstofa Eflingar kl. 10.30 vegna starfsmannafundar.

Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér.

Mál verkamanna hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu komið til lögfræðings

$
0
0

Efling-stéttarfélag hefur falið Ragnari Aðalsteinssyni lögmanni að gæta hagsmuna 18 verkamanna hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu.

Ragnari og öðrum lögmönnum hjá Rétti – Aðalsteinsson & Partners er veitt umboð til innheimtu vangoldinna launa og greiðslna, heimild til að afla gagna sem málið kann að varða og krefjast opinberrar rannsóknar á hugsanlega refsiverðu athæfi Manna í vinnu og kæra ef til þess kemur.

Í fréttum þann 7. febrúar var sagt frá ömurlegum kjörum og aðbúnaði fjölda rúmenskra starfsmanna hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu. Samkvæmt framburði mannanna fengu þeir ekki greitt fyrir unnar vinnustundir, dvöldu í þröngu ólöglegu íbúðarhúsnæði og borguðu fyrir það óhóflegar upphæðir sem dregnar voru frá launum þeirra.

Fulltrúar Eflingar og ASÍ skoðuðu aðbúnað mannanna og virkjuðu í kjölfarið framkvæmdateymi fyrir þolendur mansals. Starfsmenn kjaramálasviðs Eflingar hafa fundað með verkamönnunum og aflað frekari gagna um málið. Vegna gruns um umfangsmikið refsivert athæfi og hugsanlegt mansal var málið fært í hendur lögmannastofunnar Réttar.

Efling hefur lengi beitt sér gegn ítrekuðum brotum á kjarasamningum, sem framin eru í skjóli óljósra samninga, „útleigu“ á starfsfólki og skorts á sektarheimildum. Í Kröfugerð Eflingar, sem samin var af félagsmönnum í haust er þess meðal annars krafist að heimilt sé að innheima sektir vegna alvarlegra brota á kjarasamningi.

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóra Eflingar segir það óviðunandi að slík mál komi upp aftur og aftur, jafnvel hjá sömu aðilum undir nýrri kennitölu. „Kjaramálasviði og lögmönnum Eflingar hefur tekist að reka launakröfur með góðum árangri gegn starfsmannaleigum. En það sem við sjáum núna eru nýstárlegar aðferðir, hjá sömu aðilum, við að féfletta fólk framhjá lögum og reglum. Það kallar á að við beitum fyrir okkur nýjum lagalegum vopnum og samstarf okkar við Rétt er dæmi um það. Við erum mjög ánægð að Ragnar Aðalsteinsson og Réttur hafi fallist á að taka málið upp á sína arma.“

Reiðileysi á Grand Hótel

$
0
0

Efling sendi í gær kvörtun til Persónuverndar um „skammarlista“ sem hékk á vegg í starfsmannarými Grand Hótel nýverið. Á listanum var starfsfólki raðað eftir því hve lengi það hafði verið veikt undanfarið ár.

Forsvarsmenn Grand Hótel hafa brugðist við frásögnum af þessum lista með rangfærslum í fjölmiðlum. Þetta hefur vakið alvarlegar spurningar um starfsanda og meðferð starfsfólks á hótelinu.

Talsverður fjöldi starfsfólks, sum þeirra meðlimir Eflingar og önnur ekki, hafa sett sig í samband við stéttarfélagið eftir að fjölmiðlar tóku að fjalla um málið. Þau hafa lýst undrun yfir ummælum yfirmanna, sem mörg þeirra kannast ekkert við, um sínar eigin vinnuaðstæður.

Ummæli framkvæmdastjóra mannauðs- og gæðasviðs hjá Íslandshótelum um að skammarlistinn  „hékk ekki neins staðar uppi“ var tekið sem dæmi af nokkrum viðmælendum. Þau nafngreindu stjórnandann sem hengdi listann upp, og sögðu listann hafa verið á veggnum vikum saman.

Af þessum samtölum hefur orðið ljóst að skammarlistinn var aðeins eitt af mörgum atriðum sem hafa gert vinnustaðinn verulega óþægilegan fyrir lægst launaða starfsfólkið þar, sem flest eru erlendis frá.

Íslenskir yfirmenn virðast til dæmis ítrekað hafa niðurlægt og auðmýkt starfsfólk með því að rægja konu sem ætlaði að taka sér fæðingarorlof, krefjast þess að vera ávarpaðir með titli, baktala fólk sem fer frá vinnu til að fara á reglubundið íslenskunámskeið, og hóta starfsmanni brottrekstri fyrir að sýna sér ekki tilskilda virðingu.

„Þetta hefur verið svo frábær og samheldinn hópur árum saman,“ sagði einn starfsmaður sem kom á skrifstofu Eflingar í talsverðu tilfinningalegu uppnámi. „En nú eru þau alltaf að reyna að brjóta upp hópinn.“

„Þetta fólk er ekki vaxið starfinu sínu.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, bendir á að hér sé um kunnuglegt mynstur að ræða. „Þetta er eitthvað sem við sjáum á mörgum hótelum. Íslendingar fá forgang í allar stjórnunarstöður, meðan útlendingarnir eru fastir á gólfinu. Og þessi skil eru síðan notuð til að halda verst launaða fólkinu með verstu störfin niðri.“

„Þegar við tölum við stjórnendur hótelanna segja þau svo að auðvitað passi þau starfsandann, því hann skili sér svo vel til gesta. Eins og vellíðan starfsfólksins geti ekki verið sjálfstætt markmið. Hvað ef þeim tekst að halda starfsandanum í felum fyrir gestunum? Er þá í lagi að níðast á starfsfólkinu?“


Verkfall 8. mars samþykkt

$
0
0

Félagsmenn Eflingar samþykktu boðun verkfalls 8. mars meðal hreingerningafólks á hótelum með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða. Af 862 greiddum atkvæðum voru 769 sem samþykktu boðunina, 67 greiddu atkvæði gegn og 26 tóku ekki afstöðu. Verfallsboðunin var því samþykkt með 89% atkvæða.

Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sagði niðurstöðuna mikinn byr undir báða vægi í komandi baráttu. „Félagsmenn hafa talað. Ég er innilega stolt af félagsmönnum okkar sem hafa sent mjög skýr og kröftug skilaboð með atkvæðum sínum. Það var ótrúlegt að upplifa andrúmsloftið á vinnustöðunum þar sem við skipulögðum atkvæðagreiðslur.“

Verkfallsboðunin telst nú samþykkt af félagsmönnum og verður afhent SA og Ríkissáttasemjara strax eftir að skrifstofur opna í dag, föstudaginn 1. mars.

Í dag mun Efling tilkynna um víðtækari verkfallsaðgerðir sem verða samstilltar með VR og ná lengra fram í tímann.

Efling þakkar öllum félagsmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem og kjörstjórn Eflingar og starfsfólki sem vann hörðum höndum að kosningunni.

Á kjörskrá voru 7950 einstaklingar og þátttaka var því rétt tæp 11%.

Efling boðar atkvæðagreiðslu um verkfall

$
0
0

Samninganefnd Eflingar-stéttarfélags samþykkti á fundi sínum í gær 28. febrúar 2019 að boða til atkvæðagreiðslu um verkfall hjá hópbifreiðafyrirtækjum og á 40 hótelum á félagssvæði Eflingar á tilteknum dagsetningum.

Samkvæmt tillögunni munu aðeins þeir félagsmenn sem verkfallsboðunin tekur til greiða atkvæði.

Kjarasamningur Eflingar og Samtaka atvinnulífsins rann út þann 31. desember 2018 og hafa viðræður um endurnýjun samnings ekki borið árangur. Deilunni var vísað til ríkissáttasemjara þann 21. desember 2018 og þann 21. febrúar mat Efling það svo að viðræður hefðu reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu ríkissáttasemjara.

Krafa Eflingar er að hægt sé að lifa af lægstu launum. Sjá má nánar hér kröfugerð félagsins og upplýsingar um gang viðræðna.

Boðun vinnustöðvunar samkvæmt tillögu samninganefndar nær til 40 hótela og allra hópbifreiðafyrirtækja á félagssvæði Eflingar. Boðað yrði til fullrar vinnustöðvunar frá miðnætti til miðnættis á eftirtöldum dögum:

  • 22. mars 2019
  • 28.-29. mars 2019
  • 3.-5. apríl 2019
  • 9.-11. apríl 2019
  • 15.-17. apríl 2019
  • 23.- 25. apríl 2019

Boðað yrði til ótímabundinnar vinnustöðvunar frá og með 1. maí 2019

Að auki samþykkti samninganefndin að boðað verði til smærri verkfallsaðgerða á ofangreindum vinnustöðum á tímabilinu 18. mars til 30. apríl á þeim dögum sem falla utan fullrar vinnustöðvunar. Þær aðgerðir fela í sér að starfsmenn mæta til vinnu en fella niður einstaka verkþætti svo sem nánar er lýst í tillögu samninganefndar.

Tillaga að vinnustöðvun á hótelum 1/2

Tillaga um vinnustöðvun á hótelum 2/2

Tillaga um vinnustöðvun hjá Almenningsvögnum Kynnisferða 1/3

Tillaga um vinnustöðvun hjá Almenningsvögnum Kynnisferða 2/3

Tillaga um vinnustöðvun hjá Almenningsvögnum Kynnisferða 3/3

Tillaga um vinnustöðvun í hópbifreiðaakstri 1/2

Tillaga um vinnustöðvun í hópbifreiðaakstri 2/2

Efling hafnar misskilningi SA á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur

$
0
0

Í dag var þingfest fyrir Félagsdómi stefna Samtaka atvinnulífsins gegn Eflingu vegna almennrar leynilegrar atkvæðagreiðslu félagsmanna um verkfallsboðun þann 8. mars næstkomandi. Efling hefur brugðist við stefnunni með ítarlegri greinargerð sem unnin er af Karli Ó. Karlssyni hrl, lögmanni Eflingar.

Stefna Samtaka atvinnulífsins byggir á túlkun á 2. mgr. 15. greinar laga nr. 80/1938. Málsgreinin fjallar um verkfallsboðun sem einungis tekur til hluta félagsmanna í stéttarfélagi, líkt og raunin er um verkfallið 8. mars. Orðalag greinarinnar segir í að slíkum tilfellum sé „heimilt að taka ákvörðun um vinnustöðvun með atkvæðum þeirra sem henni er ætlað að taka til“ og gildir þá jafnframt krafa um 20% kosningaþátttöku.

Efling kaus að nýta sér ekki umrædda heimild heldur efna þess í stað til almennrar leynilegrar atkvæðagreiðslu meðal allra félagsmanna sem viðkomandi kjarasamningur tekur til, jafnvel þótt verkfallsboðunin taki aðeins til hluta þeirra. Ekkert bannar slíka nálgun og ekkert styður þá túlkun að umrætt heimildarákvæði leiði af sér skyldu. Illmögulegt er á að sjá annað en að túlkun Samtaka atvinnulífsins á ákvæðinu sé allsherjar misskilningur.

Í öðru lagi halda Samtök atvinnulífsins því fram 20% þátttökuþröskuldur eigi við um umrædda atkvæðagreiðslu sökum þess að hún hafi ekki verið almenn leynileg (rafræn) póstakvæðagreiðsla í skilningi laga. Er vísað til þess að nokkur hluti atkvæða var í reynd greiddur utan hins rafræna kjörfundar. Efling hafnar alfarið þessari túlkun og telur sig hafa haft allan rétt og málefnalegar ástæður fyrir því að bjóða félagsmönnum upp á þann möguleika að greiða atkvæði utan kjörfundar bréflega.

Sú framkvæmd hafði engin áhrif á hina almennu leynilegu rafrænu atkvæðagreiðslu, enda var þess gætt í hvívetna að utankjörfundaratkvæði væru meðhöndluð í samræmi við reglugerð ASÍ um rafrænar atkvæðagreiðslur og aðrar verklagsreglur. Þar sem ákveðinn hluti félagsmanna Eflingar hefur ekki aðgang að tölvu eða notast ekki við rafræn skilríki bar brýna nauðsyn til þess að Efling biði upp á þátttöku í atkvæðagreiðslunni með því að greiða atkvæði utan kjörfundar á pappír. Þessi framkvæmd atkvæðagreiðslunnar var í fullkomnu samræmi við reglugerðir og verklagsreglur ASÍ, svo sem áréttað er í greinargerð.

Lesa má greinargerðina í heild hér.

Atkvæðagreiðslur um verkfallsboðanir Eflingar stéttarfélags

$
0
0

Atkvæðagreiðslur um verkfallsboðanir Eflingar stéttarfélags

Samninganefnd Eflingar stéttarfélags hefur ákveðið að láta fara fram atkvæðagreiðslur um boðun  verkfalla hjá tilgreindum hótelum á félagssvæði sínu sem og hjá öllum fyrirtækjum í hópbifreiðaakstri á félagssvæðinu að undanskildum áætlunarferðum í nafni Strætó BS. Þá verða einnig greidd atkvæði um boðun verkfalla hjá Almenningsvögnum Kynnisferða ehf. Lagt er til að verkföllin verði ýmist tímabundin eða ótímabundin og að þau taki eftir atvikum til tiltekinna starfa og/eða starfsskyldna. Fyrstu verkföllin hefjist 18. mars 2019.

Hótelin sem verkföll taka til eru eftirtalin:

Fosshótel Reykjavík Þórunnartún 1, 105 Rvk.
Grand Hótel Reykjavík Sigtún 38, 105 Rvk.
Fosshótel Baron Barónsstígur 2-4, 101 Rvk.
Hótel Reykjavík Centrum Aðalstræti 16, 101 Rvk.
Fosshótel Rauðará Rauðarárstígur 37, 105 Rvk.
Fosshótel Lind Rauðarárstígur 18, 105 Rvk.
Hilton Reykjavík Nordica Suðurlandsbraut 2, 108 Rvk.
Icelandair Hótel Reykjavík Natura Nauthólsvegur 52, 101 Rvk.
Icelandair Hótel Reykjavík Marina Mýrargata 2-8, 101 Rvk.
Canopy Reykjavík – City Centre Smiðjustígur 4, 101 Rvk.
Reykjavík Konsúlat hótel Hafnarstræti 17-19, 101 Rvk.
Hótel Plaza CenterHotel Aðalstræti 4, 101 Rvk.
CenterHotel Miðgarður Laugavegur 120, 101 Rvk.
Hótel Arnarhvoll CenterHotel Ingólfsstræti 1, 101 Rvk.
Hótel Þingholt CenterHotel Þingholtsstræti 3-5, 101 Rvk.
Hótel Klöpp CenterHotel Klapparstígur 26, 101 Rvk.
Hótel Skjaldbreið CenterHotel Laugavegur 16, 101 Rvk.
Exeter Hotel Tryggvagata 12, 101 Rvk.
Reykjavík Lights Hotel Suðurlandsbraut 12, 108 Rvk.
Skuggi Hótel Hverfisgata 103, 101 Rvk.
Hótel Borg Pósthússtræti 9-11, 101 Rvk.
Storm Hótel Þórunnartún 4, 105 Rvk.
Sand Hótel Laugavegur 34, 101 Rvk.
Apótek Hótel Austurstræti 16, 101 Rvk.
Hótel Cabin Borgartún 32, 105 Rvk.
Hótel Klettur Mjölnisholt 12-14, 105 Rvk.
Hótel Örk Breiðumörk 1c, 810 Hveragerði
Radisson BLU Hótel Saga Hagatorg 1, 107 Rvk.
Radisson BLU 1919 Hótel Pósthússtræti 2, 101 Rvk.
Hotel Víking Víkingastræti 1-3, 220 Hfj.
Hótel Holt Bergstaðastræti 37, 101 Rvk.
Hótel Frón Laugavegur 22a, 101 Rvk.
Hótel Óðinsvé Þórsgata 1, 202 Rvk.
The Capital Inn Suðurhlíð 35d, 105 Rvk.
City Center Hotel Austurstræti 6, 101 Rvk.
City Park Hotel Ármúli 5j, 108 Rvk.
Kex Hostel Skúlagata 28, 101 Rvk.
101 Hótel Hverfisgata 10, 101 Rvk.
Hótel Leifur Eiríksson Skólavörðustígur 45, 101 Rvk.
Hótel Smári Hlíðasmári 13, 201 Kópavogur

Atkvæðagreiðslur hefjast kl. 12 á hádegi mánudaginn 4. mars 2019 og þeim verður lokið laugardaginn 9. mars 2019 kl. 23:59. Atkvæðisrétt eiga þeir félagsmenn sem starfa hjá þeim fyrirtækjum sem verkföllin munu taka til. Kosið verður með rafrænni kosningu auk þess sem kjörstaðir verða opnir á félagssvæðinu.

Kröfuganga á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars

$
0
0

Við munum ganga frá Gamla bíó kl.16:00 til að sýna samstöðu og styðja við láglaunakonur í verkfalli.

Á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, leggja félagar Eflingar sem vinna við þrif á hótelum niður störf. Þar eru konur í miklum meirihluta.

Í Gamla bíó verður dagskrá frá 10:00 til 18:30. Þar taka starfsmenn Eflingar við skráningum fyrir greiðslum úr vinnudeilusjóði. Kl. 16.00 verður haldið í kröfugöngu framhjá helstu hótelum í miðbænum. Göngunni lýkur kl. 17.00 á sama stað og þá tekur við dagskrá Menningar- og friðarsamtakanna MFÍK undir fundarstjórn Drífu Snædal, formanns ASÍ. Erindi halda Sanna Magdalena Mörtudóttir, Nichole Leigh Mosty, Magga Stína Blöndal og Arna Jakobína Björnsdóttir. Tónlistaratriði eru í höndum Spaðabana, Guðlaugar Fríðu og Kvennakórsins Impru.

Hér má sjá Facebook viðburð kröfugöngunnar og baráttufundarins

Baráttudagur kvenna var fyrst haldinn árið 1909 af verkakonum í New York en varð að alþjóðlegum baráttudegi kvenna þegar konur í textíliðnaðinum í Rússlandi fóru í kröfugöngu 8. mars 1917, til að krefjast friðar og bættra kjara. Markaði sú ganga upphaf rússnesku byltingarinnar. Hér á landi var dagsins sennilega fyrst minnst árið 1932 á fundi Kvennanefndar Kommúnistaflokks Íslands, og síðan árlega eftir það af þeim samtökum og A.S.V. (Alþjóðasamhjálp verkalýðsins).

Gloria Steinem bandarískur femínisti, blaðakona og aktívisti mælti eitt sinn á alþjóðadegi kvenna “Sagan af baráttu kvenna fyrir jafnrétti tilheyrir ekki einum femínista eða samtökum heldur er þetta sameiginleg barátta allra þeirra sem láta sig mannréttindi varða.”

Róttæk og öflug verkalýðshreyfing eða gönuhlaup nýrrar forystu?

$
0
0

Hinn árlegi Dagsbrúnarfyrirlestur ReykjavíkurAkademíunnar, Bókasafns Dagsbrúnar og Eflingar – stéttarfélags verður haldinn í hádeginu fimmtudaginn 7. mars næstkomandi, kl. 12:05 í sal Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1.

Fyrirlesturinn flytur Svanur Kristjánsson stjórnmálafræðingur og prófessor emeritus undir yfirskriftinni Róttæk og öflug verkalýðshreyfing eða gönuhlaup nýrrar forystu?

Frá Þjóðarsátt 1990 ríkti umtalsverð sátt um starfsemi íslenskra verkalýðsfélaga. Sú sátt er núna í uppnámi. Á opinberum vettvangi eru sagðar tvær sögur:

1. Íslenskt verkafólk er að rísa upp og kasta af sér hlekkjum lágra launa, forstjóravalds og fjandsamlegs ríkisvalds sem fyrst og síðast gætir hagsmuna þeirra ríku og voldugu. Ný forysta mun leiða sókn íslensks verkalýðs til nýs þjóðfélags þar sem hagur vinnandi fólks, kvenna sem karla, er í öndvegi. Verkföll þjóna tviþættum tilgangi: Knýja atvinnurekendur til að ganga að sanngjörnum kröfum verkafólks og eru vinnandi fólki til valdeflingar og baráttugleði.
Róttæk og öflug verkalýðshreyfing verður að veruleika.

2. Lífskjör á Íslandi eru almennt mjög góð. Verkalýðsbarátta er hins vegar átumein í þjóðfélaginu; skapar sundrungu í stað samheldni. “Vinnuveitendur” eru drifkraftur hagvaxtar; kaup og kjör “launþega” ætti að miðast við greiðslugetu atvinnuveganna. Verkalýðsfélög eiga ekki hafa nein afskipti af stjórnmálum eða þjóðmálum yfirleitt. Nýtt forystufólk verkalýðsfélaganna eru ofstækisfullir grillufangarar fastir í úreltum hugmyndum um stéttabaráttu og sósíalisma sem ætíð leiða til fátæktar og örbirgðar.
Verkföll eru úrelt baráttutæki.
Gönuhlaup nýrrar verkalýðsforystu mun leiða hörmungar yfir íslenskt verkafólk og þjóðfélagið allt.

Í fyrirlestrinum verður gerð grein fyrir sögulegum uppruna frásagnanna tveggja. Tekið skal fram að fyrirlesari er ekki aðdáandi þeirrar söguskoðunar að sannleikurinn sé ætíð afstæður. Því verður reynt að meta fræðilega stöðu og framtíðarhorfur íslenskrar verkalýðshreyfingar á umbrotatímum.

Svanur Kristjánsson er fyrrverandi prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands og fræðimaður við ReykjavikurAkademíuna. Meðal verka hans um íslenska verkalýðshreyfingu og verkalýðsflokka eru: Íslensk verkalýðshreyfing 1920-1930 (1976); “Kommúnistahreyfingin á Íslandi: Þjóðlegir verkalýðssinnar eða handbendi Stalíns ?” Saga (1984); “Hin ósæta verkalýðshreyfing”. Þjóðlíf (1986).

Aðgangur er óleypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Efling gagnrýnir óeðlileg afskipti atvinnurekenda af verkfallskosningum

$
0
0

Efling hefur fengið vitneskju um tilfelli þar sem atvinnurekendur á félagssvæði Eflingar hafa haft óeðlileg afskipti af þátttöku félagsmanna í atkvæðagreiðslum um verkfallsboðun. Um er að ræða tilfelli bæði á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum. Formaður Eflingar hefur sent almennt erindi til hótelrekenda og forsvarsmanna hópbifreiðafyrirtækja vegna þessa.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, hefur haft samband við framkvæmdastjóra nokkurra fyrirtækja í hótel- og hópbifreiðageiranum vegna kvartana frá félagsmönnum og minnt á réttindi þeirra. „Hér er því miður um ákveðið mynstur að ræða,“ segir Viðar. „Við söfnum upplýsingum um þessi tilvik og munum svo vega og meta til hvaða aðgerða verður gripið,“ bætti hann við.

Samkvæmt frásögnum félagsmanna hafa yfirmenn boðað til funda og látið frá sér skrifleg skilaboð þar sem því er hótað að verkfallsaðgerðir og jafnvel kosningaþátttaka ein geti hafi skaðlegar efnahagslegar afleiðingar fyrir starfsmenn. Slíkt er að mati Eflingar brot á lögum nr. 80 frá árinu 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur varða skaðabótum og sektum og áskilur Efling sér allan rétt til málshöfðana fyrir Félagsdómi vegna slíkra brota.

Rétturinn til verkfallsaðgerða er lögvarinn og er einn af hornsteinum íslenskrar vinnumarkaðslöggjafar. Að atvinnurekendur beiti starfsmenn þrýstingi í verkfallskosningu gengur í berhögg við lög um stéttarfélög og vinnudeilur en samkvæmt 4. grein þeirra laga er skýrt kveðið á um að atvinnurekendum sé óheimilt að reyna að hafa áhrif á afskipti verkafólks af vinnudeilum eða annarri starfsemi stéttarfélaga. Auk þess er rétturinn til þátttöku í stéttarfélögum, þar með talið atkvæðagreiðslum, varinn af stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hafði þetta að segja vegna málsins: „Það er sorglegt að atvinnurekendur skuli standa í vegi fyrir því að félagsmenn Eflingar geti tekið afstöðu í löglega boðaðri atkvæðagreiðslu. Við höfum lagt mikið á okkur við að kynna atkvæðagreiðslur okkar fyrir félagsmönnum og stuðla að sem mestri þátttöku þeirra. Þetta er lýðræðislegur og lögvarinn réttur þeirra. Efling tekur allar tilraunir til að beita félagsmenn okkar óeðlilegum þrýstingi mjög alvarlega.“

Erindi til hótelrekenda

Erindi til hópbifreiðafyrirtækja


Samninganefnd SGS lýsir yfir stuðningi við verkfall Eflingar

$
0
0

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands samþykkti eftirfarandi stuðningsyfirlýsingu á fundi sínum fyrr í dag:

Samninganefnd Starfsgreinasambands Íslands lýsir yfir fullum stuðningi við verkfall félaga okkar í Eflingu sem boðað er 8. mars nk. Um leið hvetjum við félagsmenn innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins til þess að ganga alls ekki í störf félagsmanna Eflingar komi til verkfalls.

Óskað eftir tilnefningum til setu í fulltrúaráði Gildis – lífeyrissjóðs

$
0
0

Efling – stéttarfélag kallar eftir tilnefningum til setu í fulltrúaráði Gildis – lífeyrissjóðs. Meðlimir fulltrúaráðs fara með atkvæðisrétt á ársfundi Gildis, en hann verður haldinn 11. apríl næstkomandi. Af þeim 80 fulltrúum sem sitja í fulltrúaráði fyrir hönd stéttarfélaga skipar Efling 57 og er sá hlutur reiknaður út frá vægi iðgjalda sem félagsmenn Eflingar greiða til sjóðsins.

Fulltrúaráð er skipað til tveggja ára í senn. Um hlutverk og skipun fulltrúaráðs fer nánar tiltekið eftir samþykktum Gildis sem sjá má á heimasíðu sjóðsins.

Allir fullgildir félagsmenn Eflingar geta tilnefnt sjálfan sig eða annan fullgildan félagsmann. Uppstillingarnefnd Eflingar tekur við tilnefningum á netfangið efling@efling.is merkt „Tilnefning til fulltrúaráðs Gildis“. Tilnefningar óskast sendar eigi síðar en 12 á hádegi miðvikudaginn 13. mars.

Uppstillingarnefnd mun mæla með lista fulltrúa við trúnaðarráð Eflingar sem samþykkir endanlegan lista. Fyrsti fundur nýs fulltrúaráðs Gildis er áætlaður miðvikudaginn 20. mars.

Efling boðar til félagsfundar

$
0
0

Efling – stéttarfélag boðar til félagsfundar þann 13. mars næstkomandi þar sem fundarefni verði undirbúningur fyrir aðalfund Eflingar, þar á meðal lagabreytingatillögur. Fundurinn hefst klukkan 19:00 og verður haldinn í sal Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1.

Aðalfundur Eflingar verður haldinn þann 29. apríl næstkomandi en skv. 28. gr. laga Eflingar er þar heimilt að gera breytingar á lögum ef tillögur liggja fyrir. Í 35. grein sömu laga er einnig fjallað um breytingar á lögum félagsins og segir þar:

„Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda sé þess getið í fundarboði að lagabreytingar séu á dagskrá og ennfremur skulu breytingarnar áður hafa verið ræddar á almennum félagsfundi minnst viku fyrir aðalfund. Tillögum til lagabreytinga, sem einstakir félagsmenn vilja koma á framfæri, skal skila til félagsstjórnar eigi síðar en fyrir lok marsmánaðar ár hvert.“

Dagskrá:

  1. Undirbúningur aðalfundar Eflingar m.a. lagabreytingatillögur
  2. Önnur mál

Boðað er til fundarins í samræmi við 29. grein laga Eflingar („Félagsfundir“) og samkvæmt samþykkt stjórnarfundar 28. febrúar síðastliðinn.

Lög Eflingar

Staður: Guðrúnartún 1, 105 Reykjavík, fundarsalur á 4. hæð

Tími: Miðvikudagur 13. mars, klukkan 19:00

Allir félagsmenn velkomnir á meðan húsrúm leyfir.

Kaffiveitingar og léttur matur í boði frá klukkan 18:30.

Efling fagnar niðurstöðu Félagsdóms

$
0
0

Efling – stéttarfélag fagnar niðurstöðu Félagsdóms vegna málshöfðunar Samtaka atvinnulífsins gegn félaginu vegna verkfallsboðunar 8. mars. Félagsdómur staðfestir að boðun og framkvæmd atkvæðagreiðslu vegna umræddrar verkfallsboðunar var í fullu samræmi við lög. Eins og tiltekið er í greinargerð Karls Ó. Karlssonar hrl. fyrir hönd Eflingar var framkvæmd kosningarinnar í samræmi við heimildarákvæði í 2. mgr. 15. gr. laga nr. 80 frá 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Enn fremur var framkvæmd atkvæðagreiðslu utan kjörfundar í fullu samræmi við viðeigandi lög og reglur, sér í lagi reglugerðir ASÍ.

„Frábær niðurstaða sem reyndar kemur mér ekki á óvart,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar. „Ég er gríðarlega þakklát Karli Ó. Karlssyni lögmanni okkar sem flutti málið af festu en vil líka þakka Magnúsi Norðdahl, formanni kjörstjórnar Eflingar og aðallögfræðingi ASÍ, fyrir að hafa aðstoðað við okkur við að standa rétt að þessari atkvæðagreiðslu frá upphafi. Það er leitt að þurfa að leggja svona mikla orku í að verjast lagaklækjum, en verkalýðshreyfingin á sem betur fer góða að.“

„Það er að mínu mati ekki jákvætt að notast við lagaklæki til að koma í veg fyrir að fólk geti nýtt lýðræðisleg réttindi sín. Niðurstaða dómsins staðfestir þau réttindi. Ég held að allir sem kynntu sér greinargerðir okkar og SA í þessu máli hafi séð það í hendi sér að lítill fótur var fyrir málatilbúnaði SA,“ sagði Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar.

Efling lítur á niðurstöðuna sem byr undir báða vængi og hvetur alla félagsmenn og stuðningsmenn til að mæta á dagskrá 8. mars í Gamla bíó, þar sem hótelþernur í verkfalli munu safnast saman.

Nánar auglýst hér.

Skrifstofan lokuð vegna verkfallsaðgerða 8. mars

$
0
0

Föstudaginn 8. mars verður skrifstofan lokuð vegna verkfallsaðgerða.

Hægt verður að kjósa í Gamla Bíó frá kl. 10:00-16:00.

Viewing all 1269 articles
Browse latest View live