Quantcast
Channel: Efling stéttarfélag
Viewing all 1269 articles
Browse latest View live

Efling gagnrýnir fyrirhuguð verkfallsbrot hótelrekenda harðlega

$
0
0

Efling – stéttarfélag gagnrýnir harðlega þá hótelrekendur sem hafa í hyggju að stunda verkfallsbrot á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars þegar Efling hefur boðað verkfall meðal hótelþerna. Eflingu hafa borist fjölmargar tilkynningar um að hótelrekendur hyggist beita starfsfólk þrýstingi til að ýmist sniðganga verkfallsboðun eða ganga í störf starfsfólks í verkfalli. Hvort tveggja eru verkfallsbrot.

Margar tilkynninganna hafa borist í tengslum atkvæðagreiðslu utankjörfundar, en í tengslum við hana hefur starfsfólk Eflingar heimsótt fjölmarga vinnustaði á höfuðborgarsvæðinu í vikunni.

Valgerður Árnadóttir starfsmaður félagssviðs Eflingar hefur heyrt margar slíkar frásagnir í vikunni. „Áhyggjufullir hótelstarfsmenn hafa tjáð mér að það séu uppi áform um ýmis brot, svo sem að hindra starfsmenn í að fara í verkfall sem þrífa almenningsrými og sinna þvottum. Sumstaðar er verið að boða starfsmenn sem almennt vinna ekki við þrif til að mæta fyrr og sinna þeim með herbergisþernum, bæði til að ná að klára þrif fyrir kl 10:00 og einnig eftir að verkfall hefst.“

Formaður Eflingar sendi fyrir nokkrum dögum hótelrekendum á félagssvæðinu bréf þar sem réttur starfsfólks til þátttöku í verkfalli er áréttaður ásamt með skyldum atvinnurekenda. Þar er minnt á að verkfallsbrot eru brot á lögum nr. 80 frá 1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Efling – stéttarfélag kallar eftir því að atvinnurekendur virði lög og réttindi starfsfólks.


Víðtækur stuðningur við verkfall hótelþerna

$
0
0

Eflingu –stéttarfélagi hafa borist fjölmargar stuðningskveðjur frá stéttarfélögum víða um heim og ljóst að verkfall hótelþerna á alþjólegum baráttudegi kvenna hefur vakið mikla athygli.

Svo dæmi séu tekin sendir Hotell- och restaurangfacket, HRF í Svíþjóð baráttukveðju til „hugrakkra systra og bræðra á Íslandi“ og óska öllum sem að verkfallinu standa velfarnaðar.

United Here, stéttarfélag hótelstarfsmanna í N-Ameríku sendir einnig kveðju þar sem þeir segjast standa með okkur á þessum alþjóðlega baráttudegi kvenna í baráttunni fyrir réttlæti og virðingu fyrir störfum láglaunakvenna um allan heim.

Svissneska stéttarfélagið, International Union of Food, Agricultural, Hotel, Restaurant, Catering, Tobacco and Allied Workers’ Associations – IUF sendir stuðningskveðjur til hótelþerna og standa með okkur í baráttunni fyrir bættum lífskjörum og réttlátara samfélagi.

„Það er gríðarlega mikilvægt að finna fyrir stuðningi frá félögum okkur erlendis frá og það gefur okkur byr undir báða vængi.“ Segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Við göngum spennt og full tilhlökkunar inn í daginn og þökkum fyrir allar góðar kveðjur sem okkur berast.“

Hægt að kjósa á skrifstofu Eflingar 9. mars frá 9 – 16.30

$
0
0

Á morgun, laugardaginn 9. mars verður árleg skattaaðstoð veitt í Guðrúnartúni. Félagsmenn þurfa að eiga pantaðan tíma og nauðsynlegt er að hafa veflykil meðferðis í viðtalið.

Frá klukkan 9.00 til 16.30 verður einnig hægt að kjósa á skrifstofunni. 

Efling fagnar vel heppnuðum verkfallsdegi

$
0
0

Efling – stéttarfélag þakkar öllum sem saman lögðu hönd á plóg við að gera verkfall hótelþerna á alþjóðlega kvennafrídeginum 8. mars að einstaklega vel heppnuðum viðburði. Þernur á hótelum bæjarins lögðu upp til hópa niður störf og fjölmenntu í Gamla bíó þar sem andi baráttu og samstöðu sveif yfir vötnum í allan dag. Starfsfólk Eflingar tók þar á móti umsóknum um greiðslur úr vinnudeilusjóði auk þess sem hægt var að greiða atkvæði í yfirstandandi verkfallskosningu.

Í hádeginu tóku formaður og félagsmenn Eflingar þátt í dagskrá á Lækjartorgi þar sem áherslan var á hagsmunamál og baráttu verkakvenna. Að því loknu hélt dagskrá áfram í Gamla bíó þar sem félagsmenn Eflingar og fleiri góðir gestir héldu ávörp inni á milli tónlistaratriða. Klukkan 16:00 var efnt til kröfugöngu fram hjá helstu hótelum miðbæjarins, þar sem afar vel var mætt og baráttugleðin var í algleymingi eins og sjá má á myndum.

Á sama tíma sinnti starfsfólk Eflingar verkfallsvörslu á hótelum, en varslan fór fram í nokkrum teymum sem heimsóttu hótel samkvæmt fyrirfram ákveðinni áætlun. Að sögn Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar var nokkuð um verkfallsbrot, en þó í langflestum tilvikum ekki umfangsmikil eða gróf. „Félagsmenn Eflingar og yfirmenn hótela virðast hafa verið nokkuð vel upplýstir um sín réttindi og skyldur,“ sagði Viðar. Hann sagði að almennt hafi verið vel tekið á móti verkfallsvörðum Eflingar og þeim veittur aðgangur til að skoða helstu rými í hótelum. Öllum tilfellum um verkfallsbrot verður safnað saman. Eftir helgi verður fundað með lögmanni Eflingar og mat lagt á næstu skref varðandi eftirfylgni.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist vera himinlifandi eftir daginn. „Það hefur verið sérstakt að hlusta á ýmsa karlkyns valda- og auðmenn gera lítið úr tilfinningum okkar láglaunakvenna í sambandi við þennan stórkostlega dag. Auðvitað kemur barátta okkar ekki til af góðu, en við munum ekki láta yfirstéttina neita okkur um stolt okkar og gleði yfir því að tilheyra baráttuhreyfingu. Við ætlum að breyta samfélaginu þannig að við njótum réttlætis, virðingar og sýnilega og við látum engan segja okkur fyrir verkum,“ sagði Sólveig Anna. „Ég vil þakka félagsmönnum okkar, hótelþernum og öllum sem komu til að sýna samstöðu, fyrir daginn,“ sagði Sólveig.

Eflingu barst fjöldi samstöðukveðja frá öðrum verkalýðsfélögum bæði innan lands og utan í tilefni dagsins, og þakkar Efling kærlega fyrir þessar dýrmætu kveðjur.

Verkfallsboðanir samþykktar með yfirgnæfandi meirihluta

$
0
0

Talningu í atkvæðagreiðslu um verkföll hjá tilgreindum hópum félagsmanna í Eflingu lauk um hádegi í dag. Félagsmenn Eflingar samþykktu með yfirgnæfandi meirihluta greiddra atkvæða boðun verkfalla meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum Kynnisferða.

Af 1263 greiddum atkvæðum í öllum 7 atkvæðagreiðslunum voru 1127 sem samþykktu boðanir, 103 greiddu atkvæði gegn og 33 tóku ekki afstöðu. Um 92% þeirra sem afstöðu tóku samþykktu því verkfallsboðanirnar þegar allar atkvæðagreiðslurnar eru lagðar saman. Á kjörskrá voru samtals 1710 einstaklingar. Heildarkjörsókn nam um 35% og náði í öllum tilfellum 20% lágmarks þátttökuþröskuldi.

Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, sagði niðurstöðuna ekki koma á óvart því hún hefði fundið fyrir miklum stuðningi við aðgerðir síðustu daga. „Við erum afar ánægð með þátttöku og framkvæmd atkvæðagreiðslunnar. Félagsmenn okkar eru á einu máli um að aðgerða sé þörf. Kröfur okkar eru sanngjarnar og félagsmenn eru tilbúnir að fylgja þeim eftir af krafti.“

Verkfallsboðanirnar eru nú samþykktar af félagsmönnum og verða afhentar SA og Ríkissáttasemjara.

Efling þakkar öllum félagsmönnum sem tóku þátt í atkvæðagreiðslunni sem og kjörstjórn Eflingar og starfsfólki sem vann hörðum höndum að framkvæmd atvæðagreiðslunnar.

Hér má sjá ítarleg kosningaúrslit brotin niður eftir ólíkum atkvæðagreiðslum.

 

Félagsfundur rútubílstjóra

$
0
0

Efling boðar til félagsfundar hjá rútubílstjórum í dag, 11. mars kl. 20.00 í húsakynnum Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð.

Drög að dagskrá

0. Opnun fundar
1. Fundarstjóri og fundarritari tilnefnd
2. Dagskrá yfirfarin og samþykkt
3. Eldri mál
a. Deild rútubílstjóra innan stéttarfélagsins
4. Nýrri mál
a. Verkföll
i. Niðurstöður atkvæðagreiðslu
ii. Verkfallsboðanir yfirfarnar
iii. Umræða um greiðslur úr vinnudeilusjóði og aðgerðir í vinnutruflunum
5. Tímasetning næsta fundar ákveðin

Efling-stéttarfélag auglýsir framboðsfrest

$
0
0

Kjörstjórn Eflingar-stéttarfélags auglýsir framboðsfrest vegna kosningar  stjórnar félagsins fyrir kjörtímabilið 2019-2021.

Tillögur skulu vera um 7 stjórnarmenn til tveggja ára samkvæmt 10. gr. laga félagsins. Um er að ræða varaformann og ritara auk fimm meðstjórnenda.

Listi uppstillingarnefndar og trúnaðarráðs liggur frammi á skrifstofu félagsins frá og með miðvikudeginum 13. mars 2019.

Öðrum listum ber að skila á skrifstofu félagsins fyrir kl. 12.00 á hádegi miðvikudaginn 20. mars nk.

Fylgja skulu meðmæli 120 félagsmanna.

Efling þakkar veittan stuðning í baráttunni

$
0
0

Eflingu-stéttarfélagi hafa borist fjölmargar stuðnings- og baráttukveðjur undanfarna daga og vikur. Niðurstöður atkvæðagreiðslu um verkfallsaðgerðir meðal starfsfólks á hótelum, í rútufyrirtækjum og hjá Almenningsvögnum Kynnisferða sýna á afdráttarlausan hátt að félagsmenn eru á einu máli um að aðgerða sé þörf. Mikinn meðbyr er líka að finna hjá fólki sem stendur utan við Eflingu.

Erlend stéttarfélög hafa sent félaginu stuðningsyfirlýsingar og skrifstofu Eflingar hefur borist mikill fjöldi tölvupósta, skilaboða og jafnvel heimsókna, þar sem fólk lýsir yfir stuðningi við baráttuna á ýmsan hátt.

Í gær komu á skrifstofuna eldri hjón sem ekki eru félagsmenn í Eflingu og gáfu peningagjöf að upphæð 100.000 kr. í verkfallsjóð. Lýstu hjónin, sem ekki vilja láta nafns síns getið, að þau vilji leggja sitt af mörkum í baráttunni fyrir að veita þeim lægst launuðustu, öryrkjum og eldri borgurum mannsæmandi líf. Vaxandi samstaða hefur orðið á milli Eflingar, Öryrkjabandalagsins og ellílífeyrisþega að undanförnu enda yfirlýst markmið baráttunnar fyrir betra lífi að allt fólk á Íslandi geti lifað mannsæmandi lífi.

Þessi rausnarlega gjöf hjónanna er þó ekki eini styrkurinn sem verkfallssjóðurinn hefur hlotið í tengslum við yfirstandandi kjaraviðræður. Á dögunum heimsótti skrifstofu Eflingar kona frá Milwaukee og styrkti sjóðinn um 20 dollara eftir að hafa heyrt af kröfum Eflingarfélaga í gegnum rútubílsstjóra sem hún ferðaðist með um landið.

Þó svo að verkfallsaðgerðir Eflingar nái til ferðaþjónustufyrirtækja hefur það sýnt sig að ferðamenn hafa oftar en ekki skilning á aðgerðunum og styðja kröfur Eflingar. Það er ekki gott fyrir orðspor Íslands út á við að í okkar ríka samfélagi sé stórum hópi fólks kerfisbundið haldið undir fátækramörkum. Þessu þarf að breyta. Efling þakkar innilega fyrir samstöðuna. Sameinuð stöndum við sterkari!


Undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða tekur til starfa – akstur með fólk með fatlanir sjálfkrafa undanþegið

$
0
0

Undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða Eflingar hefur tekið til starfa. Hún mun afgreiða beiðnir um undanþágur frá boðuðum verkfallsaðgerðum. Beiðnir þurfa að vera vel rökstuddar með hliðsjón af neyð, mannúðarsjónarmiðum eða stöðu sérstaklega viðkvæmra hópa.

Ákveðið hefur verið að allur akstur með fólk með fatlanir verður sjálfkrafa undanþeginn verkfallsaðgerðum. Bílstjórum sem starfa við slíkan akstur er því heimilt að sinna störfum sínum með óbreyttum hætti.

Undanþágubeiðnir skulu sendar rafrænt á netfangið undanthagunefnd@efling.is og innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  • Nafn fyrirtækis, kennitala, heimilisfang og staður.
  • Heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækis.
  • Fjöldi starfsmanna sem sótt er um undanþágu fyrir.
  • Nöfn, kennitölur og starfssvið starfsmanna sem sótt er um undanþágu fyrir.
  • Rökstuðningur fyrir undanþágubeiðni.
  • Það tímabil sem umsóknin á við um.
  • Nafn, sími og netfang tengiliðs fyrirtækis við undanþágunefnd.

Vonbrigði með úrskurð Félagsdóms – hefðbundin verkföll hefjast á föstudag

$
0
0

Efling – stéttarfélag lýsir yfir vonbrigðum með úrskurð Félagsdóms í máli Samtaka atvinnulífsins gegn félaginu vegna boðaðra örverkfalla eða vinnutruflana sem hefjast áttu 18. mars.

„Það er miður að félagsmenn okkar fái ekki að nýta verkfallsréttinn til fulls. Þessar aðgerðir eru hófsamar og byggja á stigmögnun frekar en að til fullra áhrifa komi strax,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „En við hlítum að sjálfsögðu þessum dómi og lærum af honum.“

„Við erum hvergi af baki dottin og höldum ótrauð áfram með hefðbundin verkföll sem boðuð hafa verið og hefjast næstkomandi föstudag,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.

Í boðuðum aðgerðum stóð til að starfsmenn myndu leggja niður venjubundna vinnu sína að einhverju leyti eins og ítarlega var útfært í verkfallasboðunum og tilkynnt um. Sameiginlegt markmið aðgerðanna er að knýja á um gerð nýrra kjarasamninga við stefnanda.

 

Mikill meirihluti hlynntur því að láglaunafólk fái meiri skattalækkun

$
0
0

Ríflega 80% Íslendinga eru hlynntir því að launafólk með heildartekjur undir 500 þús. kr. á mánuði fyrir skatt, fái meiri skattalækkun en aðrir. Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun sem Gallup gerði fyrir Alþýðusamband Íslands. Athygli vekur að stuðningur við slíka skattkerfisbreytingu er mikill í öllum aldurs- og tekjuhópum þó vissulega sé hann mestur hjá þeim tekjulægstu.

Þessi niðurstaða rímar vel við þær hugmyndir um skattkerfisbreytingar sem ASÍ kynnti í lok janúar og þær tillögur sem Stefán Ólafsson og Indriði H. Þorláksson settu fram í skýrslunni, Sanngjörn dreifing skattbyrðar – umbótaáætlun í skattamálum, sem út kom í febrúar.

Markmiðið er að létta byrðum af fólki með lágar- og millitekjur, auka jafnrétti og koma á sanngjarnri skattheimtu. En rannsókna ASÍ sýnir að skattbyrði hinna tekjulægstu hefur hækkað mest á undanförnum árum og dregið hefur úr jöfnunarhlutverki skattkerfisins. Í tillögum ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að sama skattalækkun gangi upp allan tekjustigann, þ.e. það skiptir ekki máli hvort einstaklingurinn sé með 300 þús kr. eða 2,3 milljónir í mánaðartekjur, allir fengju það sama.

Samkvæmt tillögum Stefáns og Indriða geta láglaunafólk og lífeyrisþegar fengið að minnsta kosti um 20 þúsund króna lækkun staðgreiðslu á mánuði. Um 90% framteljenda fengju skattalækkun, lítil breyting yrði á skattbyrði næstu 5 prósentanna, en tekjuhæstu 5 prósentin fengju hækkaða skattbyrði. Sýndar eru margar leiðir til að fjármagna slíkar breytingar, bæði með því að nýta núverandi svigrúm í ríkisfjármálunum og með brýnum umbótum á skattheimtu og efldu eftirliti með skattaundanskotum og skattvikum.

Sjá frétt á vef ASÍ

Sjá frétta á vef Eflingar

 

Samstöðufundur rútubílstjóra í Vinabæ

$
0
0

Samstöðufundur rútubílstjóra í Vinabæ

Verkfall hópbifreiðastjóra hefst föstudaginn 22. mars og stendur frá miðnætti til miðnættis.

Opið hús verður í Vinabæ, Skipholti 33, 105 Rvk. kl. 12.00 – 17.00. Þar verður haldinn samstöðufundur, tekið við umsóknum fyrir greiðslu úr vinnudeilusjóði og bækistöðvar verkfallsvaktar.

Þeir sem fara í verkfall og eiga vakt eða eru með vinnudag þegar verkfallið stendur geta fengið styrk úr vinnudeilusjóði. Til að fá greitt úr sjóðnum þarf að skrá sig inn á dagskrá sem hefst í húsinu kl. 13.00 og aftur út að henni lokinni og fylla út umsóknareyðublað sem starfsfólk Eflingar verður með á staðnum.

Samstöðufundur – Dagskrá

Ávörp munu lesa:

  • Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness
  • Guðmundur Baldursson, í stjórn Eflingar
  • Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar
  • Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar

Lesnar verða upp stuðningsyfirlýsingar sem berast nú víða að.

Maxim Baru, sviðsstjóri félagssviðs Eflingar fjallar um skipulagningu deildar hópbifreiðastjóra innan stéttarfélagsins og leiðir síðan umræður meðal félagsmanna um áframhaldandi verkfallsaðgerðir og hver séu næstu skref í baráttunni.

Fundarstjóri er Daníel Örn Arnarsson, í stjórn Eflingar

Boðið verður upp á skemmtiatriði og kaffiveitingar.

Stöndum saman kæru félagar og fjölmennum!

Hvernig verður greitt úr verkfallssjóði?

Þeir sem fara í verkfall og eru með vakt eða vinnudag þegar verkfallið stendur geta fengið styrk úr vinnudeilusjóði. Launatapið verður bætt, reiknað út frá meðaltali heildartekna undangenginna sex mánaða, upp að 550.000 krónum á mánuði. Hógvær krafa er um þátttöku í dagskrá í Vinabæ. Þeir sem forfallast eru beðnir að hafa samband við skrifstofu Eflingar dagana 1. og 2. apríl. Greitt verður úr sjóðnum eigi síðar en 15. apríl ef allar upplýsingar á umsókn eru réttar.   

Verkfallsvarsla meðal hópbifreiðastjóra í Eflingu – undirbúningsfundur

$
0
0

Efling – stéttarfélag boðar til undirbúningsfundar fyrir félagsmenn sem vilja taka þátt í verkfallsvörslu meðal hópbifreiðafyrirtækja á föstudaginn 22. mars.

Fundurinn verður haldinn klukkan 18:00 fimmtudagskvöldið 21. mars í salarkynnum Eflingar á 4. hæð í Guðrúnartúni 1.

Áhugasamir munu geta skráð sig í verkfallsvörslu. Farið verður yfir helstu atriði varðandi skipulag verkfallsvörslunnar og þau viðmið sem gilda.

Upplýsingar um hótelverkfall á föstudaginn 22. mars

$
0
0

Ef þú ert í Eflingu eða VR, og vinnur á einhverju af hótelunum sem eru talin upp hér að neðan, þá nær verkfallið til þín.

Það skiptir ekki máli hvort þú hafir tekið þátt í kosningunni eða hvaða deild hótelsins þú vinnur á, eða hvort þú starfir þar sem verktaki. Það skiptir ekki heldur máli hvort þú sért skráður í rangt stéttarfélag – verkfallið nær til allra sem vinna störf samkvæmt kjarasamningum Eflingar og VR í hótelum.

Einu undantekningarnar eru hóteleigendur og æðstu stjórnendur.

Hægt er að sækja um verkfallsstyrk í kröfustöðunni. Það verða sex kröfustöður, athugaðu listann hér fyrir neðan til að sjá hvar starfsfólk þíns hótels ætlar að hittast.

Ef þú kemst ekki á þína kröfustöðu, þá verður lokavakt á Austurvelli sem hefst klukkan 15:00.

Upphafsstaðir og tímasetningar

8:00 11:30
Hist á Austurvelli: Konsulat Hótel Saga
  Radison 1919 City Center Hotel
  Apotek Reykjavík Centrum
  Borg Reykjavík Marina
  Exeter Óðinsvé
  Plaza Leifur Eiríksson
  Arnarhvoll 101 Hótel
  Þingholt
  Hótel Holt
Hist við Nordica: Grand hótel Nordica
  Rvk Lights Hótel Cabin
  City Park Hótel Viking
  Capital Inn Hótel Smári
  Hótel Örk
Hist við Hlemm: Fosshótel Reykjavík Hótel Natura
  Storm Kex
  Skuggi Fosshótel Barón
  Sand Hótel Fosshótel Lind
  Frón Hótel Fosshótel Rauðará
  Klöpp Klettur
  Skaldbreið Canopy
  Miðgarður

Algengar spurningar

Hvers vegna erum við að fara í verkfall?

Efling krefst hærri lágmarkslauna, svo dagvinna dugi fyrir framfærslu og leigu í Reykjavík. Þetta jafngildir 425.000 krónum á mánuði. Við förum líka fram á sterkari gæslu réttinda okkar og að láglaunafólki á Íslandi verði sýnd virðing. Atvinnurekendur hafa ekki gengið að þessum kröfum, og hafa gert okkur svívirðilega léleg boð. Til að sýna fram á mikilvægi vinnu okkar í túristahagkerfinu ætlum við að leggja niður störf í löglegu verkfalli.

Hvernig veit ég hvort ég sé að fara í verkfall?

Áður en verkfall getur átt sér stað þurfa meðlimir að samþykkja það í atkvæðagreiðslu. Slík atkvæðagreiðsla er sett af stað af hálfu samninganefndar Eflinar. Efling auglýsir atkvæðagreiðslur þegar til þeirra kemur.

Hver má ganga í mín störf meðan ég er í verkfalli?

Þegar boðað er til verkfalls á Íslandi, þá er öðrum verkamönnum ekki heimilt að ganga í starfið sem verkfallið nær til. Svo dæmi tekið, þegar þernur á hóteli fara í verkfall, þá má fólk úr afgreiðslunni ekki sinna störfum þeirra á meðan. Ekki má kalla inn verktaka til að leysa starfsmann í verkfalli af hólmi. Að sama skapi má ekki boða þig í störf annarra sem eru í verkfalli.

Að ganga í annarra störf í verkfalli er kallað verkfallsbrot og er bæði synd og skömm og getur varðað við lög. Aðeins eigendur fyrirtækis og æðstu stjórnendur geta gengið í störf sem heyra undir verkfall.

Hvað gerist ef ég verð rekinn fyrir að fara í verkfall?

Það er ólöglegt og refsivert að segja upp fólki fyrir þátttöku í verkfalli. Stéttarfélagið hefur lögfræðinga á sínum snærum sem munu bregðast við ef atvinnurekendur hóta eða reyna að aga starfsfólk fyrir verkfallsþátttöku.

Fæ ég greidd laun í verkfallinu?

Þeir sem fara í verkfall og eru með vakt eða vinnudag þegar verkfallið stendur geta fengið styrk úr sjóðnum. Launatapið verður bætt að fullu, reiknað út frá meðaltali heildartekna undangenginna sex mánaða, upp að 550.000 krónum á mánuði. Hógvær krafa um þátttöku í verkfallsvakt eða skyldum viðburðum verður gerð fyrir úthlutun. Þeir sem ekki komast geta haft samband við félagið 1. og 2. apríl fyrir verkfallsdaga í marsmánuði.

Hvað ef yfirmaðurinn minn biður mig að koma til vinnu?

Allar beiðnir eða þrýstingur um að koma til vinnu á meðan verkfall stendur yfir eru ólöglegar. Stéttarfélagið getur sótt fyrirtækið sem um ræðir til saka og farið fram á skaðabætur í slíkum tilfellum. Ef þú hefur fengið slíka beiðni eða orðið fyrir þrýstingi geturðu sent okkur tölvupóst á efling@efling.is

Var verkfallið ekki dæmt ólöglegt?

Hluti verkfallsboðana Eflingar, sem gengu út á vinnutakmarkanir, voru dæmdar ólöglegar af Félagsdómi. Hefðbundnar verkfallsboðanir standa enn og munu eiga sér stað frá miðnætti til miðnættis eftirfarandi daga:

  MÁN ÞRI MIÐ FIM FÖS LAU SUN
MARS 18 19 20 21 22 23 24
  25 26 27 28 29 30 31
APRÍL 1 2 3 4 5 6 7
  8 9 10 11 12 13 14
  15 16 17 18 19 20 21
  22 23 24 25 26 27 28
MAÍ 29 30 1 2 3 4

Verkföllin eiga sér stað á eftirfarandi hótelum

Fosshótel Reykjavík Þórunnartún 1, 105 Rvk.
Grand Hótel Reykjavík Sigtún 38, 105 Rvk.
Fosshótel Baron Barónsstígur 2-4, 101 Rvk.
Hótel Reykjavík Centrum Aðalstræti 16, 101 Rvk.
Fosshótel Rauðará Rauðarárstígur 37, 105 Rvk.
Fosshótel Lind Rauðarárstígur 18, 105 Rvk.
Hilton Reykjavík Nordica Suðurlandsbraut 2, 108 Rvk.
Icelandair Hótel Reykjavík Natura Nauthólsvegur 52, 101 Rvk.
Icelandair Hótel Reykjavík Marina Mýrargata 2-8, 101 Rvk.
Canopy Reykjavík – City Centre Smiðjustígur 4, 101 Rvk.
Reykjavík Konsúlat hótel Hafnarstræti 17-19, 101 Rvk.
Hótel Plaza CenterHotel Aðalstræti 4, 101 Rvk.
CenterHotel Miðgarður Laugavegur 120, 101 Rvk.
Hótel Arnarhvoll CenterHotel Ingólfsstræti 1, 101 Rvk.
Hótel Þingholt CenterHotel Þingholtsstræti 3-5, 101 Rvk.
Hótel Klöpp CenterHotel Klapparstígur 26, 101 Rvk.
Hótel Skjaldbreið CenterHotel Laugavegur 16, 101 Rvk.
Exeter Hotel Tryggvagata 12, 101 Rvk.
Reykjavík Lights Hotel Suðurlandsbraut 12, 108 Rvk.
Skuggi Hótel Hverfisgata 103, 101 Rvk.
Hótel Borg Pósthússtræti 9-11, 101 Rvk.
Storm Hótel Þórunnartún 4, 105 Rvk.
Sand Hótel Laugavegur 34, 101 Rvk.
Apótek Hótel Austurstræti 16, 101 Rvk.
Hótel Cabin Borgartún 32, 105 Rvk.
Hótel Klettur Mjölnisholt 12-14, 105 Rvk.
Hótel Örk Breiðumörk 1c, 810 Hveragerði
Radisson BLU Hótel Saga Hagatorg 1, 107 Rvk.
Radisson BLU 1919 Hótel Pósthússtræti 2, 101 Rvk.
Hotel Víking Víkingastræti 1-3, 220 Hfj.
Hótel Holt Bergstaðastræti 37, 101 Rvk.
Hótel Frón Laugavegur 22a, 101 Rvk.
Hótel Óðinsvé Þórsgata 1, 202 Rvk.
The Capital Inn Suðurhlíð 35d, 105 Rvk.
City Center Hotel Austurstræti 6, 101 Rvk.
City Park Hotel Ármúli 5j, 108 Rvk.
Kex Hostel Skúlagata 28, 101 Rvk.
101 Hótel Hverfisgata 10, 101 Rvk.
Hótel Leifur Eiríksson Skólavörðustígur 45, 101 Rvk.
Hótel Smári Hlíðasmári 13, 201 Kópavogur

Skert þjónusta vegna verkfallsaðgerða

$
0
0

Föstudaginn 22. mars verður skert þjónustugeta á skrifstofu Eflingar vegna verkfallsaðgerða. Bið getur myndast eftir afgreiðslu og við hvetjum fólk til að hafa samband eftir helgi eða senda tölvupóst á efling@efling.is ef erindið þolir bið.


Vitni að verkfallsbroti?

$
0
0

Ef þú veist um möguleg verkfallsbrot eða verður vitni að verkfallsbrotum geturðu látið vita í gegnum netfangið verkfallsbrot@efling.is

Stöndum vörð um réttindi okkar til verkfalls og tilkynnum öll brot.

Fyllsta trúnaðar er gætt.

Baráttuhugur í félagsmönnum Eflingar

$
0
0

Verkfallsaðgerðir Eflingar og VR hafa gengið vel í dag þrátt fyrir slæmt veður og að töluvert hafi þurft að hafa afskipti af hugsanlegum verkfallsbrotum.

Hótelstarfsfólk gekk á milli hótela og safnaðist saman í kröfustöður til að sýna samstöðu og vekja athygli á kröfum sínum um virðingu, réttindi og betri kjör. Auk þess tók hópur sér stöðu fyrir framan Hús atvinnulífsins að Borgartúni 35. Þessi hópur lét ekki vonskuveður á sig fá, stóðu vaktina og báru kröfuspjöld sín með stolti.   

Í Vinabæ fjölmenntu rútubílstjórar á samstöðufund. Mikill baráttuhugur var í mönnum, fluttar voru eldheitar hvatningaræður og rútubílstjórar ræddu sín málefni, baráttu og framtíð.

Á visir.is má nálgast upptökur af ræðum Viðars Þorsteinssonar, framkvæmdastjóra Eflingar, Guðmundar Baldurssonar í stjórn Eflingar og Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR.  

Upplýsingar um verkfall hjá hótelstarfsfólki 28. og 29 mars

$
0
0

Næstu verkföll verða fimmtudaginn 28. mars og föstudaginn 29. mars. Ef þú ert í Eflingu eða VR, og vinnur á einhverju af hótelunum sem eru talin upp hér að neðan, nær verkfallið til þín.

Það skiptir ekki máli hvort þú hafir tekið þátt í kosningunni, í hvaða deild hótelsins þú vinnur, eða hvort þú starfir þar sem verktaki. Það skiptir heldur ekki máli ef þú ert skráður í rangt stéttarfélag – verkfallið nær til allra sem vinna störf samkvæmt kjarasamningum Eflingar og VR í hótelum.

Einu undantekningarnar eru hóteleigendur og æðstu stjórnendur.

Ef þú ert í öðru stéttarfélagi og ert beðinn að vinna aukavinnu meðan á verkfallinu stendur er líklega verið að biðja þig um að fremja verkfallsbrot – það er ólöglegt.

Sýnum samstöðu – virðum verkfallsréttinn!

Til að fá styrk úr Vinnudeilusjóði tekur þú þátt í kröfustöðu. Það verða fjórar kröfustöður hvorn dag, athugaðu listann hér fyrir neðan til að sjá hvar starfsfólk þíns hótels ætlar að hittast.

  08:00 11:30
Austurvöllur: Hótel Saga Konsulat
  City Center Hotel Radison 1919
  Reykjavík Centrum Apotek
  Reykjavík Marina Borg
  Óðinsvé Exeter
  Leifur Eiríksson Plaza
  101 Hótel Arnarhvoll
  Nordica Þingholt
  Miðgarður Hótel Holt
  Grand hótel
  Rvk Lights
Hlemmur: City Park Hótel Natura
  Capital Inn Kex
  Fosshótel Reykjavík Fosshótel Barón
  Storm Fosshótel Lind
  Skuggi Fosshótel Rauðará
  Sand Hótel Klettur
  Frón Hótel Canopy
  Klöpp Hótel Örk
  Hótel Cabin Hótel Viking
  Skjaldbreið Hótel Smári

Rútuverkfall 28.-29. mars: Upplýsingar

$
0
0

Á fimmtudaginn og föstudaginn verður verkfall í rútufyrirtækjum á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, í 48 tíma alls. Rútubílstjórar í Eflingu eru beðnir að hjálpa við að verja verkfallið. Verkfallsvarsla verður í tveimur vöktum, klukkan 2:00 og 7:00 að morgni hvors dags.

Til að taka þátt í verkfallsvörslu og fá styrk úr verkfallssjóði er mætt á skrifstofu Eflingar, Guðrúnartún 1, við upphaf vaktar. Ef þú vinnur að nóttu til, þá er þín vakt sú sem hefst klukkan 2:00. Ef þú vinnur að degi til, þá er þín vakt sú sem hefst klukkan 7:00. Vaktirnar eru þær sömu á fimmtudag og föstudag.

Á skrifstofu Eflingar, við upphaf vaktar, verður farið yfir áætlunina. Svo hefst verkfallsvarslan.

Efling álítur allan akstur hópferðabifreiða á félagssvæði Eflingar, af hálfu annarra en eigenda og æðstu stjórnenda, vera verkfallsbrot. Félagssvæði Eflingar er appelsínugula svæðið á þessari mynd:

Undanþágunefnd vegna verkfallsaðgerða – akstur með fólk með fatlanir sjálfkrafa undanþegið

$
0
0

Ákveðið var að allur akstur með fólk með fatlanir verður sjálfkrafa undanþeginn verkfallsaðgerðum. Bílstjórum sem starfa við slíkan akstur er því heimilt að sinna störfum sínum með óbreyttum hætti.

Undanþágubeiðnir skulu sendar rafrænt á netfangið undanthagunefnd@efling.is og innihalda eftirfarandi upplýsingar:

  • Nafn fyrirtækis, kennitala, heimilisfang og staður.
  • Heildarfjöldi starfsmanna fyrirtækis.
  • Fjöldi starfsmanna sem sótt er um undanþágu fyrir.
  • Nöfn, kennitölur og starfssvið starfsmanna sem sótt er um undanþágu fyrir.
  • Rökstuðningur fyrir undanþágubeiðni.
  • Það tímabil sem umsóknin á við um.
  • Nafn, sími og netfang tengiliðs fyrirtækis við undanþágunefnd.
Viewing all 1269 articles
Browse latest View live