Quantcast
Channel: Efling stéttarfélag
Viewing all 1268 articles
Browse latest View live

Við óskum eftir sjálfboðaliðum í verkfallsvörslu

$
0
0

Hótelstarfsmenn og rútubílstjórar eru í verkfalli fimmtudag og föstudag 28-29 mars og við óskum eftir liðsinni ykkar sem vilja styðja við kjarabaráttu félaga ykkar.

Við bendum einnig öllum félögum okkar á að standa með þeim sem eru í verkfalli með því að ganga ekki í störf þeirra og láta vita ef þið verðið vitni að öðrum ganga í þeirra störf. Verkfallsbrot grafa undan kjarabaráttu okkar allra.

Við erum að semja um betri kaup og kjör fyrir alla félagsmenn. Til að kjarabarátta okkar beri árangur og viðsemjendur okkar taki kröfur okkar alvarlega er mikilvægt að við sýnum hvort öðru samstöðu.

Ef þið hafið áhuga á að sinna verkfallsvörslu endilega sendið okkur tölvupóst og tilgreinið tíma sem þið getið mætt ásamt símanúmeri.

Sendið póst á felagssvid@efling.is


Samstilltar aðgerðir á Suðvesturhorninu í undirbúningi

$
0
0

Formenn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis (VSFK), Verkalýðsfélags Grindavíkur, VR og Eflingar – stéttarfélags hittust á vinnufundi í morgun þar sem ræddar voru samstilltar verkfallsaðgerðir á Suðvesturhorninu. Félagssvæði þessara félaga eru samliggjandi og að hluta til sameiginleg. Þar er að finna miðstöðvar margra helstu atvinnuvega landsins, til dæmis uppskipun stóru skipafélaganna og flugsamgöngur, þar á meðal flugfraktina. Að auki má nefna einn stærsta ferðamannastað landsins, Bláa lónið. Formenn félaganna voru sammála um að aðgerðir þurfi að hefjast sem allra fyrst.

Guðbjörg Kristmundsdóttir, sem nýlega tók við formennsku í VSFK, lýsti ánægju með fundinn. „Í mínum huga er mikilvægt að verkalýðsfélögin á sama landssvæði sýni samstöðu. Um er að ræða eitt og sama atvinnusvæði að stórum hluta og kjörin sem verkafólk býr við á svæðinu mjög samtengd. Einnig er að koma á daginn að það er nauðsynlegt að stilla saman verkfallsaðgerðir til þess að vekja viðsemjendur okkar af svefni,“ sagði Guðbjörg.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði mikinn styrk felast í samstillingu aðgerða milli félaga á Suðvesturhorninu: „Frestunaráráttan hjá Samtökum atvinnulífsins er að verða óbærileg. Fyrsta átyllan til að forðast umræður við okkur um launaliðinn voru hugmyndir þeirra um vinnutímabreytingar. Nú er það Wow Air. Hvað næst? Ég tel það mikið ábyrgðarleysi hvernig SA hafa dregið lappirnar mánuðum saman. Er það til of mikils mælst að hefja umræður um launakröfur okkar, nú þegar brátt er hálft ár liðið frá því að við settum fram kröfugerð okkar og verkfallsaðgerðir hafa staðið í á þriðju viku?“

Hörður Guðbrandsson, formaður VLFG, benti á að ákveðnir atvinnurekendur á svæðinu hafi gert sér að leik að dreifa félagsaðild á vinnustöðum. „Í Bláa lóninu, svo dæmi sé nefnt, er starfsmönnum nokkuð jafnt skipt milli Eflingar, VSFK og míns félags. Er þetta hugsað til að gera verkfallsaðgerðir erfiðari? Hvað sem því líður, með samstöðu og samstillingu geta félögin náð fram tilætluðum áhrifum af aðgerðum. Ég fagna samstarfi þessara félaga.“

Verslunarmannafélag Suðurnesja samþykkti að sameinast VR í nýlegri atkvæðagreiðslu og mun sameiningin væntanlega fá samþykki aðalfundar VR í kvöld. Ragnar Þór Ingólfsson benti á þann mikla styrkleika sem felst í sameiningu félaganna og stækkuðu félagssvæði. „Yfirlýsingar forsvarsmanna ferðaþjónustugeirans og annarra sérhagsmunaafla um að ekki sé ráðlegt að hækka laun eru eitthvað sem við munum að sjálfsögðu svara af fullri hörku. Íslenskt efnahagslíf hefur allra burði til að tryggja almenningi mannsæmandi kjör, slíkt er sjálfsögð sanngirniskrafa. Samstarf félaganna eflir trú mína á að ásættanleg niðurstaða náist fyrr en seinna,“ sagði Ragnar Þór.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness sagðist binda miklar vonir við breikkað samstarf um aðgerðir. „Slíkt samstillt átak hlýtur að fá SA til að koma loksins að borðinu af alvöru,“ sagði Vilhjálmur. Hann sagði undirbúning aðgerða á sínu félagssvæði vera hafinn og að það yrði umræðuefni stjórnarfundar félagsins á morgun.

Verkfalli 28.-29. mars aflýst: Takmarkaður en þýðingarmikill árangur

$
0
0

Efling – stéttarfélag hefur aflýst boðuðum verkfallsaðgerðum 28. og 29. mars sem hefjast áttu innan örfárra klukkutíma.

Efling aflýsir aðgerðunum í ljósi þess að viðræðugrundvöllur hefur loksins reynst vera til staðar af hálfu Samtaka atvinnulífsins. Þetta kom fram í viðræðum SA við formenn samflotsfélaga í Karphúsinu síðdegis í dag.

Aðrir þættir boðaðrar verkfallsáætlunar félagsins standa, en næstu boðuðu sólarhringsverkföll félagsins eru næstkomandi miðvikudag, fimmtudag og föstudag. Strætisvagnar í rekstri Kynnisferða hefja einnig háannatímaverkföll á mánudaginn í næstu viku. Efling biður félagsmenn að fylgjast vel með fréttum og tilkynningum yfir helgina.

Efling þakkar félagsmönnum, starfsfólki og sjálfboðaliðum fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt í undirbúning og framkvæmd verkfallsaðgerða, sem nú hafa skilað takmörkuðum en þýðingarmiklum árangri.

Vegna hópuppsagnar Kynnisferða

$
0
0

Efling harmar hópuppsögn 59 starfsmanna Kynnisferða. Stærstur hluti þeirra eru hópbifreiðastjórar sem starfa undir kjarasamningi Eflingar. Félagið hefur fylgst náið með framvindu málsins og gætt hagsmuna félagsmanna Eflingar vegna uppsagnanna, bæði svo félagsmönnum Eflingar sé ekki sagt upp á undan öðrum starfsmönnum, og að uppsagnir séu ekki látnar beinast sérstaklega að virkum félagsmönnum.

Á þriðjudag og fimmtudag sátu trúnaðarmenn og starfsmenn Eflingar fundi með fulltrúum fyrirtækisins og Samtaka atvinnulífsins. Formaður og framkvæmdastjóri Eflingar voru auk þess viðstaddir starfsmannafund í höfuðstöðvum fyrirtækisins síðdegis á fimmtudag þar sem uppsögnin var tilkynnt.

Fulltrúar Eflingar hafa á þessum fundum ítrekað lýst þungum áhyggjum við forsvarsmenn Kynnisferða af því að efnt sé til hópuppsagna á sama tíma og hörð kjaradeila stendur yfir. Verkfallsaðgerðir hafa verið boðaðar í fyrirtækinu, bæði meðal rútubílstjóra frá síðasta föstudegi og hjá strætóbílstjórum félagsins frá og með næstkomandi mánudegi. Starfsmenn fyrirtækisins hafa tekið þátt í atkvæðagreiðslu um verkföll, sinnt verkfallsvörslu og verið í eldlínunni í kjarabaráttu á margvíslegan hátt.

Atvinnurekendur mega ekki hlutast til um þátttöku starfsmanna í vinnu stéttarfélaga með uppsögn úr vinnu eða hótunum um uppsögn. Þetta er ljóst af fjórðu grein laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Fulltrúar Eflingar hafa hvatt trúnaðarmenn og starfsmenn Kynnisferða til að leita aðstoðar félagsins ef þeir telja að óeðlilegar ástæður geti legið að baki uppsögn þeirra. Við ítrekum að kjaramálasvið Eflingar þjónustar alla félagsmenn vegna krafna eða ágreinings um vangoldin laun.

Efling hefur haldið mjög á lofti 6. grein kjarasamningsins við SA, um forgangsrétt Eflingarmeðlima til starfanna sem samningurinn nær til. Þegar verkföll Eflingar og VR voru í þann mund að hefjast básúnuðu Kynnisferðir þeirri staðreynd að hjá fyrirtækinu störfuðu bílstjórar sem væru skráðir í önnur stéttarfélög, eða engin, og að þeim væri frjálst að brjóta verkfallið. Ljóst er að þessir einstaklingar geta ekki notið forgangs þegar kemur að hópuppsögn. Efling og VR hafa áréttað sameiginlegan skilning sinn á þessu ákvæði kjarasamningsins við Kynnisferðir.

Efling ítrekar, eftir sem áður, að öllum sem það vilja er frjálst að hafa samband við skrifstofu félagsins til að leiðrétta félagsaðild sína.

Strætó verkföll hefjast 1. apríl

$
0
0

Strætó verkföll 1.-5. apríl

Bílstjórar sem keyra Strætó og vinna fyrir Almenningsvagna Kynnisferða eru að fara í vinnustöðvun í 4 klst. á dag frá og með 1. apríl eins og hér segir:

Vinnustöðvun gengur yfir leiðir númer 12, 14, 15, 16, 17, 21, 24, 28, 35 og 36

Öll vinna er lögð niður dag hvern frá klukkan 07:00 til 09:00 að morgni og aftur frá klukkan 16:00 til 18:00 síðdegis.

Leiðirnar sem um ræðir munu stöðva á þessum tímum á þrem stærstu stoppistöðvunum:

·         Hlemmur

·         Hamraborg

·         Mjódd

Frá og með 1. apríl 2019 til og með 1. maí 2019 að frátöldum laugardögum og sunnudögum.

Bílstjórar munu leggja strætisvögnunum og mynda kröfustöðu fyrir utan þessar stoppistöðvar og við hvetjum ykkur til að sýna þeim samstöðu og skilning.

Þetta er fólkið sem keyrir okkur samviskusamlega alla daga í vinnu, skóla, á sjúkrahús og hvert sem för okkar er heitið. Þeir bera mikla ábyrgð og eru á lágmarkslaunum í erfiðisvinnu sem tekur sinn toll af öryggi þeirra og líðan.

Bílstjórarnir eru að berjast fyrir betri launum, mannsæmandi starfsumhverfi, virðingu vinnuveitenda sinna og aukinni aðkomu að ákvarðanatöku.

Barátta þeirra er barátta okkar allra, verkfall þeirra er okkar verkfall.

Styðjum við strætóbílstjóra í verkfalli.

 Verkfallsbrot eru litin alvarlegum augum. Ef þið verðið var við þessar leiðir í akstri á þessum tímum má senda póst á verkfallsbrot@efling.is

Vegna fréttaflutnings Stöðvar 2 í kvöldfréttum 31. mars

$
0
0

Vegna fréttaflutnings Stöðvar 2 í kvöldfréttum 31. mars vill Efling – stéttarfélag koma því á framfæri að orð Viðars Þorsteinssonar framkvæmdastjóra Eflingar um viðræður um vinnutímabreytingar voru með öllu rangtúlkuð af fréttamanni.

Framkvæmdastjóri Eflingar sagði í viðtali að steytt hefði á umræðum um vinnutímabreytingar en að sá ásteytingarsteinn væri nú úr vegi. Með því átti hann við að vinnutímabreytingar væru ekki lengur til viðræðu, líkt og hefur verið krafa Eflingar og samflotsfélaga.

Fréttamaður misskildi orð Viðars á þann veg að samkomulag um vinnutímabreytingar væri í bígerð eða jafnvel í höfn, en slíkt er algjörlega úr lausi lofti gripið. Frétt um efnið hefur verið leiðrétt á Visir.is

Verkföllum á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum 3.-5. apríl aflýst

$
0
0

Efling – stéttarfélag hefur aflýst sólarhringsverkföllum á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum. Árangur hefur náðst í samningaviðræðum sem nánar verður kynntur á morgun.

Verkföllum hjá Almenningsvögnum Kynnisferða, sem keyra Strætó, hefur enn ekki verið aflýst en starfsmenn þar funda með forsvarsmönnum fyrirtækisins í fyrramálið.

Fallist á grunnatriði kjarasamnings

$
0
0

Efling og samflotsfélög í kjaraviðræðum hafa fallist á grundvallaratriði kjarasamnings við Samtök atvinnulífsins. Meðlimir samninganefndar Eflingar – stéttarfélags funduðu ásamt forystu félagsins í gærkvöld í húsakynnum Ríkissáttasemjara þar sem rætt var ítarlega um inntak viðræðna síðustu daga og þann grundvöll sem þar hefur loks myndast. Þessi grundvöllur varð til í gegnum stífar viðræður Eflingar og samflotsfélaganna VR, LÍV, Framsýnar, VLFA og VLFG við Samtök atvinnulífsins síðustu daga.

Að höfðu samráði við félagsmenn ákvað formaður Eflingar að aflýsa verkfallsaðgerðum og vinna að lokagerð samnings. Mun sú vinna hefjast strax í dag, auk þess sem leitað verður eftir viðbrögðum frá stjórnvöldum en aðkoma þeirra er mikilvægur fyrirvari um undirritun samnings þegar þar að kemur.

„Niðurstaðan í þessum viðræðum er ekki fullnaðarsigur heldur vopnahléslína milli stéttar verkafólks og stéttar auðmagnseigenda. Baráttan milli þeirra heldur áfram. Ég er sátt við að við höfum fengið fram grundvöll til þess að loka samningi eftir langar og strangar kjaraviðræður,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir. „Félagsmenn okkar hafa auðvitað síðasta orðið um hvort þeir samþykkja samning í atkvæðagreiðslu eða ekki. En ég held að með þessum samningsgrundvelli hafi náðst að koma til móts við kröfur okkar félagsmanna um lífskjarabót.“

Viðar Þorsteinsson framkvæmdastjóri Eflingar sagði stálinn stinn hafa mæst á lokametrum samningagerðarinnar. „Hér skipti miklu máli pressan sem verkfallsaðgerðir okkar sköpuðu, samtakamáttur félagsmanna og sá mikli meðbyr sem við höfum fundið í samfélaginu við kröfur Eflingar og bandalagsfélaga okkar,“ sagði Viðar.

Efling undirbýr nú áætlun um kynningu komandi samnings meðal félagsmanna, á félagsfundum og með kynningarefni. Trúnaður hvílir enn sem komið er um inntak viðræðna.


Verkföllum hjá bifreiðastjórum Almenningsvagna Kynnisferða aflýst

$
0
0

Verkföllum hjá bifreiðastjórum Almenningsvagna Kynnisferða hefur verið aflýst frá og með morgundeginum.

Þessi ákvörðun var tekin af starfsmönnum eftir viðræður við forsvarsmenn fyrirtækisins í morgun.

Bifreiðastjórar munu stöðva akstur í dag milli 16 og 18 en öðrum verkföllum aflýst.

Efling undirritar kjarasamning

$
0
0

Efling og samflotsfélögin VR, LÍV, Framsýn, VLFA og VLFG hafa undirritað kjarasamning við Samtök atvinnulífsins með fyrirvara um aðkomu ríkisvaldsins. Einnig undirrituðu aðildarfélög SGS sams konar samning. Samningurinn mun mynda hluta af víðtækri sátt um bætt kjör láglaunafólks þar sem aðilar vinnumarkaðarins, ríkisvaldið og Seðlabankinn leggja af mörkum.

Þessi víðtæka samvinna stofnana samfélagsins um að bæta kjör láglaunafólks er beinn árangur af baráttu Eflingar og samflotsfélaga.

Samninganefnd Eflingar veitti formanni umboð á þriðjudagskvöld til að ljúka við kjarasamninginn sem undirritaður var í kvöld.

Leiða má líkum að því að enginn kjarasamningur á Íslandi hvorki fyrr né síðar hafi tryggt jafn vel að kjarabætur beinist sérstaklega að lágtekjufólki. Allar launahækkanir samningsins til félagsmanna samflotsfélaganna eru krónutöluhækkanir og við þær bætast sérstakar krónutöluhækkanir á taxta.

Efling er stolt af þátttöku sinni í breiðri samstöðu með VR og Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna um krónutöluhækkanir og sérstakar hækkanir á taxta. Þessi styrka samstaða mun í framhaldinu gefa tóninn fyrir launastefnu gagnvart öðrum hópum bæði á almennum og opinberum markaði. Efling er einnig stolt af að hafa tryggt að sá ábati verði ekki tekinn til baka í gegnum skattkerfið, líkt og gerðist á samningstíma síðasta kjarasamnings.

Hreinar launahækkanir til þeirra sem starfa á töxtum nema 90 þúsund krónum í fjórum hækkunum yfir samningstímann, sem er til 3 ára og 8 mánaða. Þessi hækkun er rúmlega fjórðungi lægri en krafa Eflingar og annarra SGS félaga um 125 þúsund króna hækkun á þremur árum. Lág hækkun árið 2019 dregur helst niður heildarhækkunina. Með þessu er tekið tillit til stöðu atvinnulífsins vegna gjaldþrota og uppsagna í ferðaþjónustu auk þess sem sköpuð eru skilyrði til vaxtalækkunar.

Til viðbótar hefðbundnum nafnlaunahækkunum koma til ýmis atriði sem munu auka ráðstöfunartekjur og eru þannig ígildi launahækkana.

Í samningnum er nýstárlegt ákvæði sem tryggir að hagvaxtaraukning skili sér til launafólks í formi krónutöluhækkana. Að því gefnu að hagvöxtur á mann aukist um tiltekið hlutfall munu koma til sjálfkrafa hækkanir til viðbótar hefðbundnum umsömdum launahækkunum. Líkt og aðrar krónutöluhækkanir í samningnum er þessi hagvaxtartengdi launaauki útfærður þannig að hann skilar sér betur til þeirra sem vinna á töxtum. Miðað við meðalhagvöxt síðustu 30 ára gæti slíkur ábati skilað 10-24 þúsund til viðbótar við heildarhækkun launa á samningstímanum.

Ein af forsendum samningsins er að Seðlabanki Íslands lækki stýrivexti. Samningsaðilar eru sammála um að samningurinn skapi aðstæður til þess. Lækkun vaxta mun hafa mikil áhrif á útgjöld skuldsettra heimila og einnig stuðla að lækkun leiguverðs. Í samningnum verða forsenduákvæði um uppsögn hans verði vaxtalækkanir ekki að raunveruleika.

Samhliða undirritun samnings mun ríkisvaldið skuldbinda sig til að lækka skatta þannig að það skili sér í 10 þúsund króna aukningu ráðstöfunartekna á mánuði til handa tekjulægstu hópum í skrefum. Tryggt verður að hækkuð skattleysismörk haldi raungildi sínu út samningstímann. Hækkun skerðingarmarka barnabóta, til viðbótar við hækkun barnabóta sem þegar var kynnt í fjárlögum síðasta árs, mun einnig skila sér vel til tekjulágra.

Aðgerðir ríkisins í húsnæðismálum koma til með að fela í sér aukið fjármagn til byggingar íbúðarhúsnæðis fyrir tekjulága og lagasetningu sem hamlar óhóflegum hækkunum húsaleigu.

Að auki mun ríkið skuldbinda sig til kerfisbreytinga varðandi lánakjör og fjármálakerfið, sérstaklega til skrefa til afnáms verðtryggingar.

Vegna umfjöllunar um styttingu vinnutíma og kaffitíma

$
0
0

Vegna framsetningar á inntaki kjarasamnings aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins við Samtök atvinnulífsins varðandi vinnutímabreytingar vill Efling – stéttarfélag koma eftirfarandi á framfæri:

  • Kjarasamningur SA við aðildarfélög SGS, svokallaður „Lífskjarasamningur“, felur ekki í sér neinar tryggingar fyrir styttingu vinnutímans hjá almennu verkafólki.
  • Samningurinn felur í sér heimild til vinnustaðabundinna viðræðna og framkvæmdar á raunstyttingu vinnutíma gegn því að launaðir kaffitímar verði einnig afnumdir að hluta eða í heild. Sú heimild er sambærileg eldri heimildum til afmarkaðra vinnutímabreytinga sem þegar voru til staðar í 5. kafla kjarasamnings við SA, svokölluðum „Fyrirtækjaþætti kjarasamninga“.
  • Nýi samningurinn felur ekki í sér að starfsfólk afsali sér réttinum til launaðra kaffitíma nema skilyrðum umrædds 5. kafla sé að öllu leyti fylgt, þar með talið um ítarlegt samráð við starfsfólk, atkvæðagreiðslu og aðkomu stéttarfélags.

Efling og samflotsfélög Eflingar stóðu staðfastlega gegn hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um allsherjarbreytingar á skipulagi vinnutíma í þeim kjaraviðræðum sem nú er lokið, en þær breytingar hefðu leitt til hreinna kjaraskerðinga. Efling hafnaði alfarið tillögum um lengingu dagvinnutímabils, lengingu uppgjörstíma yfirvinnu og sölu kaffitíma á almennum grunni. Þessar tillögur SA náðu ekki fram að ganga.

Þær heimildir til styttingar vinnutímans sem nú koma inn í nýjum kjarasamningi eru aðeins lítilsháttar breytingar á skilyrtum heimildum sem þegar voru í kjarasamningi og munu ekki hafa áhrif á nema á einstaka vinnustöðum þar sem samkomulag um slíkt næst.

Nýr kjarasamningur – kynningarfundir

$
0
0

Efling – stéttarfélag efnir til opinna funda fyrir félagsmenn þar sem nýr kjarasamningur verður kynntur.

Fundirnir verða haldnir í húsnæði Eflingar, Guðrúnartúni 1, 4. hæð:

  • Þriðjudaginn 9. apríl kl. 18.00 á íslensku
  • Miðvikudaginn 10. apríl kl. 20.00 á ensku
  • Fimmtudaginn 11. apríl kl. 20.00 – á pólsku

Fundum verður streymt, streymi má nálgast á Facebook síðu Eflingar

Allir félagsmenn Eflingar velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Ársfundur Gildis 2019

$
0
0

Ársfundur Gildis-lífeyrissjóðs verður haldinn klukkan 17.00 fimmtudaginn 11. apríl á Grand Hótel Reykjavík.

Dagskrá:

  • Skýrsla stjórnar
  • Kynning ársreiknings
  • Gerð grein fyrir tryggingafræðilegri úttekt, fjárfestingarstefnu og hluthafastefnu
  • Starfskjarastefna – til staðfestingar
  • Tillögur til breytinga á samþykktum
  • Kosning/skipan stjórnar
  • Ákvörðun launa stjórnarmanna
  • Kosning nefndar um laun stjórnarmanna
  • Kjör endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtækis
  • Önnur mál

Á fundinum verður farið ítarlega yfir rekstur og ávöxtun Gildis á árinu 2018. Kynningin byggir á ársskýrslu sjóðsins sem nú liggur fyrir.

Fundurinn er opinn öllum félagsmönnum Eflingar.

Ársskýrsla og önnur fundargögn

Helstu atriði nýs kjarasamnings

$
0
0

Efling ásamt samflotsfélögum og SGS hefur undirritað nýjan kjarasamning við Samtök atvinnulífsins, með fyrirvara um samþykki félagsmanna í atkvæðagreiðslu.

Helstu atriði:

  • Samningurinn gildir frá 1. apríl 2019 til 1. nóvember 2022 eða í 3 ár og 8 mánuði
  • Allar hækkanir samningsins eru krónutöluhækkanir
  • Samið er um samtals 90 þúsund króna hækkun taxtalauna.
  • Lægstu laun hækka mest eða 30% hækkun á lægstu taxta
  • Eingreiðsla upp á 26 þúsund kr. kemur til útborgunar í byrjun maí 2019
  • Vaxtalækkun á samningstímanum bundin í forsenduákvæði samnings

Hækkanir mánaðarlauna þeirra sem starfa á kauptöxtum:

  • apríl 2019: 17.000 kr.
  • apríl 2020 24.000 kr.
  • janúar 2021 24.000 kr.
  • janúar 2022 25.000 kr.

Hækkanir mánaðarlauna þeirra sem eru ofan við kauptaxta:

  • apríl 2019: 17.000 kr.
  • apríl 2020: 18.000 kr.
  • janúar 2021: 15.750 kr.
  • janúar 2022: 17.250 kr.

Lágmarkstekjutrygging

Í samningnum verður áfram svokölluð lágmarkstekjutrygging, sem tryggir lágmarks mánaðarlaun fyrir fulla vinnu að meðtöldum álögum, bónusum og aukagreiðslum jafnvel þótt mánaðartaxtar án álaga séu lægri. Hækkanir lágmarkstekjutryggingar:

  • apríl 2019: 317.000 kr.
  • apríl 2020: 335.000 kr.
  • janúar 2021: 351.000 kr.
  • janúar 2022: 368.000 kr

Hagvaxtartengdar launahækkanir

Á árunum 2020-2023 komi til framkvæmda launahækkun að gefinni ákveðinni þróun hagvaxtar á hvern íbúa. Þessi tenging við hagvöxt tryggir launafólki hlutdeild í verðmætasköpun þjóðarbúsins. Þetta ákvæði nýtist best þeim tekjulægri þar sem þessi hækkun fer af fullum þunga á taxtakaup og ¾ á önnur laun. Hagvaxtarauki getur hækkað taxtalaun um 3-13 þúsund á ári eftir því hvað verg landsframleiðsla á mann hækkar mikið á tímabilinu.

Hagvaxtartengdar launahækkanir koma til áhrifa 1. maí árin 2020, 2021, 2022 og 2023 og byggjast á hagvaxtartölum ársins á undan, reiknuðum af Hagstofunni.

Hækkun hagvaxtar á íbúa milli ára Launahækkun á taxta Launahækkun á laun ofan við taxta
1.00-1.50% 3.000 kr. 2.250 kr.
1.51-2.00% 5.500 kr. 4.125 kr.
2.01-2.50% 8.000 kr. 6.000 kr.
2.51-3.00% 10.500 kr. 7.875 kr.
Meira en 3.00% 13.000 kr. 9.750 kr.

Hækkanir á öðrum liðum

2,5% hækkun kemur á aðra launaliði kjarasamninganna 2020-2022, til dæmis bónusa.

Desemberuppót (var 89.000 kr. 2018)

  • 2019 92.000 kr.
  • 2020 94.000 kr.
  • 2021 96.000 kr.
  • 2022 98.000 kr.

Orlofsuppbót fyrir hvert orlofsár (var 48.000 kr. 2018)

  • 1. maí 2019 50.000 kr.
  • 1. maí 2020 51.000 kr.
  • 1. maí 2021 52.000 kr.
  • 1. maí 2022 53.000 kr.

Eingreiðslan kemur sem sérstakt álag á orlofsuppbót árið 2019 uppá 26.000 kr. sem greiðist eigi síðar en 2. maí 2019.

Forsendur kjarasamninganna eru eftirfarandi:

  1. Kaupmáttur launa hafi aukist á samningstímabilinu skv. launavísitölu Hagstofu Íslands.
  2. Vaxtir lækki verulega fram að endurskoðun samnings í september 2020 og haldist lágir út samningstímann.
  3. Stjórnvöld standi við gefin fyrirheit skv. yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninganna.

Forsendur kjarasamninga verða metnar í september 2020 og september 2021. Forsendunefnd verður skipuð þremur fulltrúum frá hvorum samningsaðila.

LÍFSKJARASAMNINGURINN 2019-2022

VEFSÍÐA ASÍ

UMFJÖLLUN Á RÚV

UMFJÖLLUN Á MBL.IS 

UMFJÖLLUN Á VISIR.IS

UMFJÖLLUN Á KJARNANUM

Draga laun af starfsfólki vegna verkfalla

$
0
0

Efling – stéttarfélag fordæmir harðlega þá ákvörðun IcelandAir Hotels að draga laun af starfsmönnum vegna verkfalla sem þeir tóku ekki þátt í. Efling skorar jafnframt á hótelkeðjuna að leiðrétta mistökin tafarlaust. Hótelkeðjunni ber að bæta starfsmönnum upp launamissi ásamt með dráttarvöxtum og veita þeim jafnframt afsökunarbeiðni.

Efling hafnar alfarið tilraunum hótelkeðjunnar til að skjóta sér undan ábyrgð á málinu. Fulltrúi keðjunnar hefur hermt upp á starfsmenn að þeir hafi sagst eiga rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóði þótt þeir hafi ekki verið við störf. Slíkt á sér enga stoð í veruleikanum. Efling gaf út ítarlegar skriflegar leiðbeiningar um rétt á greiðslum úr vinnudeilusjóðum og þar kemur slíkt hvergi fram. Skýringar hótelsins standast því enga skoðun og eru yfirklór.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar segir þetta svívirðilega framkomu. „Það er verið að hafa laun upp á 12-25 þúsund krónur af fólki sem er á lægstu laununum. Það er hreint með ólíkindum að hótelkeðjan skuli grípa til þessara ráðstafana og við munum bregðast við af fullri hörku.“

Efling mun gera kröfu á IcelandAir Hotels að greiða starfsmönnunum sem ekki voru á vakt laun, ef ekki verður orðið við henni verður farið með málið fyrir dóm.

Sjá frétt á visir.is

Sjá frétt á ruv.is

 

 


Jafnaðarsamningurinn 2019 – eftir Stefán Ólafsson

$
0
0

Almennt um kjarasamninginn

Nýr kjarasamningur verkalýðshreyfingarinnar við atvinnurekendur er um margt nýstálegur. Kjarabætur koma á óvenju fjölbreyttu formi og af því tilefni hafa margir kallað samninginn „lífskjarasamning“.

Ég tel hins vegar að megin einkenni samningsins og mesta nýmælið sé að hann er óvenju mikill jafnaðarsamningur. Kjarabætur eru mestar hjá þeim sem eru á lægri launum. Það gildir um launahækkanir, skattalækkanir, hækkun barnabóta og víðtækar umbætur í húsnæðismálum.

Í forsenduákvæði er þó einnig gert ráð fyrir að kaupmáttur meðallauna aukist.

Launahækkanir

Í fyrsta sinn koma launahækkanir á formi fastrar krónutölu er gengur upp launastigann, í stað hefðbundinna prósentuhækkana sem skila hærri launahópum fleiri krónum. Kauphækkunin verður því hlutfallslega mest í lægstu hópunum. Þeir sem eru á strípuðum taxtalaunum fá einnig meiri hækkanir en aðrir.

Þá er innleitt nýmæli sem felur í sér hagvaxtartengdar launahækkanir til viðbótar, fari hagvöxtur á mann yfir tiltekin mörk. Miðað við hagvaxtarreynslu frá 1990 til nútímans eru yfirgnæfandi líkur á að þetta skili umtalsverðum viðbótarhækkunum á samningstímanum.

Hættan á að kostnaður atvinnulífsins vegna umsamdra launahækkana verði sérstaklega íþyngjandi er lítil sem engin, vegna hóflegra hækkana í efstu tekjuhópum – en hálaunafólk hefur þegar fengið miklar hækkanir á síðustu árum.

Framlag ríkisins

Ríkið leggur að þessu sinni óvenju mikið af mörkum til að greiða fyrir gerð samningsins og vega 10.000 króna skattalækkanir til lágtekjufólks mest, en þær eru ígildi launahækkunar sem nemur 15.900 króna á mánuði (sjá kynningu hér).

Að auki hækkar ríkið barnabætur sem koma sérstaklega í hlut fjölskyldna með mjög lágar tekjur (ígildi 15.000 króna launahækkunar einstæðs foreldris tveggja barna sem er á lágmarkslaunum). Hjón á lágmarkslaunum fá 50% meira samanlagt. Fæðingarorlof er lengt úr 9 í 12 mánuði.

Öflugt átak til að auka byggingu nýrra íbúða fyrir láglaunafólk og úrræði innleidd til að styðja við fyrstu kaup og niðurgreiðslu lána miða að því að leiðrétta skekkju í framboði húsnæðis og ofurhækkanir sem óheftur markaður hefur innleitt á síðustu árum.

Stjórnvöld munu einnig beita sér fyrir lagasetningu um hömlur á óhófshækkanir húsaleigu (leigubremsu) og gera refsiverð svik atvinnurekenda er skirrast við að greiða starfsfólki sínu réttmæt umsamin laun. Margþætt önnur réttinda- og umbótaúrræði er að finna í aðgerðapakka stjórnvalda, ekki síst gegn félagslegum undirboðum. Allt er það mikilvægt.

Skilyrði til vaxtalækkana og hömlur á verðtryggingu lána

Hófleg hækkun launa á fyrsta ári samningsins skapar að mati samningsaðila góð skilyrði til lægra verðbólgustigs og vaxtalækkana, sem er mikið hagsmunamál fyrir bæði heimilin og fyrirtækin.

Þetta er sérstaklega mikilvægt hagsmunamál fyrir ungt fjölskyldufólk sem glímir við mikla skuldabyrði, vegna óhófshækkana á húsnæðisverði á síðustu árum. Ef slík lækkun skilar sér ekki, að óbreyttum skilyrðum, þá er samningurinn uppsegjanlegur í september 2020 eða 2021.

Þá lofa stjórnvöld að hamla notkun nýrra verðtryggðra neyslulána og taka húsnæðisliðinn út úr nýjum neyslulánum frá og með næstu áramótum.

Sveigjanleiki til vinnustaðasamninga aukinn

Ýtt er undir aukinn sveigjanleika til samninga á vinnustöðum um breytta skipan vinnutíma, sem getur leitt til styttingar viðveru á vinnustað úr 40 í 36 stundir á viku, í ítrustu dæmum.

Hverjar eru kjarabætur láglaunafólks í heild?

Ljóst er að ef meta á hverju samningurinn skila láglaunafólki til kjarabóta þá þarf að taka tillit til sem flestra þátta hans, ásamt beinum launahækkunum.

Í töflunni hér að neðan er þetta gert, með samanburði á þróun lágmarkslauna á samningstímabilinu 2015 til 2018 við nýja samninginn sem gildir frá 2019 til 1. nóvember 2022.

Launahækkanir þóttu góðar í síðasta kjarasamningi en hins vegar skemmdi aukin skattbyrði og rýrnun barnabóta ávinning láglaunafólks af samningnum þá. Tryggt er að ekkert slíkt gerist núna, heldur þvert á móti bæta fyrirhugaðar skattalækkanir og auknar barnabætur kjör þeirra lægst launuðu svo um munar.

Sýnd er heildarhækkun lágmarkslaunatryggingar á báðum tímabilum (2015-2018 og 2019-2022) og bætt við hagvaxtartengdum launahækkunum og ígildi launahækkana sem skattalækkunin og hækkun barnabóta nú skila láglaunafólki á samningstímabilinu í heild.

Hækkanir lágmarkskjara á samningstímabilinu og samanburður við síðasta kjarasamning

Sviðsmyndir:  Hagvaxtarauki I Hagvaxtarauki II Hagvaxtarauki III
Lágmarkslaun, hækkun 2015-2018 86.000 86.000 86.000
Lágmarkslaun, hækkun 2019-2022 68.000 68.000 68.000
Viðbætur nú:
Með hagvaxtartengdri launahækkun 9.000 19.000 24.000
Með hækkun barnabóta 15.000 15.000 15.000
Með skattalækkun upp á 10.000 kr. 15.900 15.900 15.900
Samtals 2019-2022 107.900 117.900 122.900
Munur hækkana milli samningstímabila 21.900 31.900 36.900
ATH: Kjarabætur vegna hugsanlegra vaxtalækkunar eru ekki meðtaldar
Skýringar á sviðsmyndum:
Hagvaxtarauki I – Þrjú ár með 1% hagvexti á mann
Hagvaxtarauki II – Tvö ár með 1,5% vexti og eitt ár með 2%
Hagvaxtarauki III – Eitt ár með 1,5%, annað með 2% og eitt með 2,5%
Tölur um hækkun barnabóta og skattalækkun eru reiknaðar yfir í ígildi launahækkana. Þeir sem eru á strípuðum töxtum fá þessa hagvaxtartengdu launahækkun til fulls en aðrir frá 75% af henni. Ekki er gert ráð fyrir hagvaxtaraukningu fyrir árið 2019

Lágmarkslaunatryggingin hækkaði um samtals 86.000 krónur á síðasta samningstímabili, úr 218.000 í 300.000 kr. á mánuði. Nú hækkar hún minna, eða um 68.000 krónur samtals og endar í 368.000 á síðasta ári samningsins. Hækkanir á strípaða taxta eru hærri, eða um 90.000 kr. á tímabilinu.

Hins vegar skila skattalækkunin og hækkun barnabóta láglaunafólki samtals ígildi launahækkunar um 30.900 krónur til viðbótar og að auki koma hagvaxtartengdar launahækkanir. Miðað við reynslu síðustu þriggja áratuga er líklegast að sviðsmynd II (Hagvaxtarauki II í töflunni) verði niðurstaðan, með 19.000 króna viðbótar launahækkun.

Ef það verður niðurstaðan munu kjörin hafa batnað um ígildi 117.900 króna launahækkunar. Krafa verkalýðsfélaganna var að ná fram 120.000 króna launahækkun á þremur árum.

Eins og taflan sýnir er kjarabati þeirra sem hafa laun nærri lágmarkslaunatryggingunni (sem er 300.000 krónur áður en nýi kjarasamningurinn tekur gildi) frá 21.900 til 36.900 krónum meiri en var á síðasta samningstíma. Framlag stjórnvalda á stóran þátt í að tryggja þessa hagstæðu útkomu.

Ekki eru meðtaldar í töflunni kjarabætur heimilanna vegna hugsanlegrar vaxtalækkunar.

Ég tel að þessi útkoma sýni gjörla hversu mikil tímamót eru falin í þessum kjarasamningi.

Ný forysta með nýjar leiðir nær árangri

Nú er sýnt að ný forysta í verkalýðshreyfingunni hefur náð góðum árangri. Grundvöllur þess var lagður með frumlegri og snjallri kröfugerð, sem í senn beindist að atvinnurekendum og stjórnvöldum.

Órofa samstaða meðal verslunarfólks og verkafólks, undir nýrri forystu, gerði gæfumuninn. Staðföst þrautseigja og snjöll beiting verkfallsvopnsins sköpuðu þrýstinginn sem til dugði.

Samningurinn felur í sér víðtækar umbætur í samfélagsmálum og leggur að auki sitt af mörkum til að draga úr landlægu tillitsleysi fjármálageirans gagnvart hagsmunum heimila og smærri fyrirtækja.

Jafnaðarsamningurinn er lífskjarasamningur – og lífskjarasamningurinn er jafnaðarsamningur.

Á hvorn veginn sem það er skilgreint er ljóst að hér hafa orðið tímamót í kjaraþróun landsmanna.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands og sérfræðingur í hlutastarfi hjá Eflingu – stéttarfélagi 

Hádegisfundur: Innflytjendur í ferðaþjónustu – drifkraftur vaxtar og hagsældar

$
0
0

Í tilefni af útkomu rannsóknarskýrslunnar Innflytjendur í ferðaþjónstu – drifkraftur vaxtar og hagsældar, umbreytingar á íslenskum vinnumarkaði, boðar Mirra, til hádegisfundar þar, sem dr. Hallfríður Þórarinsdóttir mun kynna helstu niðurstöður samnefndrar rannsóknar sinnar.

Fundurinn fer fram í Þjóðminjasafni Íslands, fimmtudaginn 11. apríl, kl. 12.00-13.15.

Í rannsókninni var rýnt í hlutdeild innflytjenda í stærstu atvinnugrein landsins: ferðaþjónustunni þar sem starfsfólk á hótelum, rútufyrirtækjum/ferðaskrifstofum og bílaleigum var skoðað sérstaklega. Greint verður frá margbreytilegri samsetningu hópanna, sem til rannsóknar voru og þær niðurstöður skoðaðar í ljósi kenninga um etnískt lagskiptann vinnumarkað. Rannsóknarniðurstöður eru lýsandi dæmi um þær grundvallarbreytingar sem eru að verða á íslenskum vinnumarkaði með hraðvaxandi fjölgun innflytjenda. Breytingunum fylgja fjölmargar áskoranir –  fyrir yfirvöld, aðila vinnumarkaðarins, ferðaþjónustuna og samfélagið í heild. Rannsóknin varpar ljósi á þessar áskoranir og vekur upp gagnrýnar spurningar þar að lútandi.

Dagskrá:

12:00 – 12:05 – Tatjana Latinovic, formaður Innflytjendaráðs ávarpar gesti.

12:05 – 12:45 – dr. Hallfríður Þórarinsdóttir kynnir helstu niðurstöður rannsóknar.

12:45 – 13:15 – Umræður og fyrirspurnir úr sal.

Kynningin er öllum opin.

Rafræn atkvæðagreiðsla

$
0
0

Atkvæðagreiðsla um kjarasamninginn er rafræn og hefst föstudaginn 12. apríl kl. 13.00 og lýkur þriðjudaginn 23. apríl kl. 16.00. Fyrir þá sem ekki geta greitt atkvæði rafrænt verður boðið upp á utankjörfundaratkvæðagreiðslu hjá hverju félagi fyrir sig.

Launakröfur 2018 námu 233 milljónum

$
0
0

Í fyrra gerði Efling 550 kröfur vegna vangoldinna launa, eða um tvær hvern virkan dag ársins. „Þetta er langmest í veitingabransanum,“ segir Tryggvi Marteinsson, kjaramálafulltrúi, „og meira en nokkru sinni áður. Við erum að slá met á hverju ári í fjölda bréfa sem við sendum.“

Að meðaltali eru kröfurnar upp á 423 þúsund krónur, sem er litlu undir meðaltali mánaðarlauna félagsmanna í Eflingu. Í heild nema kröfurnar 233 milljónum.

„Þetta er peningurinn sem er af einskærri ósvífni stolið af félagsmönnum okkar,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. „Með einbeittum brotavilja, oftar en ekki.“

„Þetta eru mikið til sömu fyrirtæki og við rukkuðum árið á undan,“ segir Tryggvi. „Það er mikil þörf á að gera þessa háttsemi refsiverða.“

Ríkisstjórnin segir að löggjöf sé í bígerð þar sem heimilað verður að sekta fyrir brot á kjarasamningi. „Forsenda þess að kjarasamningarnir haldi eru að þessi loforð verði efnd,“ segir Sólveig. „Við erum með augun á þessu atriði, sérstaklega. Það er ekki í lagi að atvinnurekendur geti leikið sér með að stela af fólki laun. Þetta er einfaldlega glæpsamlegt.“

Veitingahúsum hefur fjölgað mikið undanfarin ár, og eru þau mönnuð ungu starfsfólki, mörgum erlendisfrá. Vinnustaðaeftirlit Eflingar hefur beint spjótum að geiranum sérstaklega, en alls var farið á 837 vinnustaði í fyrra.

Efling sendir bréf til atvinnurekenda um að virða réttindi starfsfólks vegna verkfalla

$
0
0

Efling – stéttarfélag hefur sent bréf til forsvarsmanna hótela og hópbifreiðafyrirtækja með áskorun um að láta starfsfólk ekki gjalda fyrir störf sín fyrir Eflingu í aðdraganda samningsgerðar, þar með talið í tengslum við verkföll.

Efling boðaði til víðtækra verkfallsaðgerða á hótelum og í hópbifreiðafyrirtækjum í aðdraganda samningsgerðar og til aðgerða kom dagana 8. og 22. mars og 1.-2. apríl.

Í tengslum við undirritun samnings var frekari verkfallsaðgerðum Eflingar aflýst og starfa aðilar vinnumarkaðarins nú undir friðarskyldu.

Talsvert var um verkfallsbrot og félaginu bárust einnig fregnir af ýmsum óeðlilegum þrýstingi einstakra atvinnurekenda í garð starfsmanna. Má þar nefna loforð um greiðslur, hótanir um frádrátt greiðslna og að starfsmenn hafi verið látnir gjalda á annan hátt fyrir þátttöku í verkföllum.

Samkvæmt 4. grein laga 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er atvinnurekendum með öllu óheimilt að reyna að hafa áhrif á þátttöku starfsmanna í starfi stéttarfélaga, þar með talið verkföllum. Brot á lögunum varða sektum og skaðabótum. Þá er samkvæmt 11. grein sömu laga óheimilt að segja trúnaðarmönnum upp vinnu vegna starfa þeirra sem trúnaðarmenn eða láta þá á nokkurn annan hátt gjalda þeirra starfa. Í nýundirrituðum kjarasamningi er enn fremur að finna nýja bókun um vernd þeirra sem gegna trúnaðarstörfum fyrir stéttarfélög með setu í stjórn, samninganefnd eða trúnaðarráði.

Efling og Samtök atvinnulífsins hafa undirritað sameiginlega yfirlýsingu um að öll deilumál og kröfur milli aðila vegna verkfallsaðgerða verði látnar niður falla. Mikilvægt er að sú sátt sem þar birtist sé virt af öllum aðilum vinnumarkaðar.

Í bréfinu, sem sent var fyrr í vikunni, er skorað á atvinnurekendur að virða friðarskylduna til fulls. Efling mun bregðast við af fullri hörku verði það þess vart að atvinnurekendur beini spjótum með óeðlilegum hætti gegn starfsmönnum vegna átaka á vinnumarkaði sem nú er lokið að sinni.

Afrit af bréfinu var sent til Samtaka atvinnulífsins og ASÍ.

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, sagði af þessu tilefni: „Því miður hefur reynsla undanfarinna vikna kennt okkur að sumir atvinnurekendur eru í hefndarhug gegn starfsfólki sínu. Það er alltof algengt að atvinnurekendur telji sig hafa heimildir til að refsa starfsfólki fyrir þátttöku í starfi stéttarfélags, til dæmis í verkfallsvörslu eða að hafa komið fram opinberlega og tjáð sig um aðstæður á sínum vinnustað. Einnig höfum við séð dæmi um eins konar hóprefsingar, svo sem óheimilan launafrádrátt hjá IcelandAir Hotels. Skilaboð okkar til atvinnurekenda eru: Nú er mál að linni. Virðið réttindi starfsfólks.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar: „Á síðustu vikum höfum við orðið vör við eitthvað sem ég get best lýst sem kúgunarkúltúr á íslenskum láglaunavinnustöðum. Atvinnurekendur hafa of lengi komist upp með gerræði og yfirgang, væntanlega af því að þeir halda að láglaunafólk eigi sér ekki rödd og málsvara. Verkfallsaðgerðir okkar, meðal annars hinn stórglæsilegi verkfalldagur 8. mars þar sem láglaunakonur sýndu mátt sinn og megin, sanna hins vegar að svo er ekki. Við erum sterk, við erum stolt og við stöndum saman um réttindi hvers annars. Þetta eru skilaboðin okkar til atvinnurekenda og þau breytast ekki þótt kjarasamningur liggi fyrir.“

Viewing all 1268 articles
Browse latest View live