Quantcast
Channel: Efling stéttarfélag
Viewing all 1268 articles
Browse latest View live

Efling boðar til félagsfundar

$
0
0

Efling-stéttarfélag boðar til félagsfundar miðvikudaginn 17. apríl í húsakynnum Eflingar í Guðrúnartúni 1, 4.hæð.

Fundurinn hefst klukkan 20.

Dagskrá:

  1. Yfirferð um reglur er varða lagabreytingar á aðalfundi Eflingar
  2. Kynning á tillögum lagabreytingahóps
  3. Aðrar tillögur um lagabreytingar
  4. Önnur mál

Stjórn Eflingar


Stjórn Eflingar ályktar um málefni tengd kjarasamningum

$
0
0

Á stjórnarfundi Eflingar sem haldinn var 11. apríl sl. ræddi stjórn m.a. um málefni öryrkja og eldri borgara í tengslum við kjarasamninga og samþykkti eftirfarandi ályktun:

Stjórn Eflingar – stéttarfélags tekur undir með áhyggjum öryrkja og þeirra eldri borgara sem búa við alvarlegan og uppsafnaðan lífskjaravanda. Svonefndir lífskjarasamningar sem Efling er aðili að og meðfylgjandi yfirlýsing ríkisstjórnarinnar fela vissulega í sér kjarabót í formi skattalækkunar sem nýtist þessum hópi, en í vilyrðum ríkisstjórnarinnar er ekki að finna neinar áætlanir um frekari aðgerðir til að mæta vanda þessa hóps. Stjórn Eflingar kallar eftir því að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að afnema skerðingar og bregðast við öðrum réttmætum kröfum öryrkja og eldri borgara. Stjórn Eflingar ítrekar samstöðu með þessum hópum, sem telja marga núverandi og fyrrverandi félagsmenn Eflingar.

Ályktun stjórnar Eflingar um efndir á fyrirheitum stjórnvalda

Þá var á sama fundi samþykkt ályktun þar sem kallað er eftir því að stjórnvöld leggi fram tímasetta áætlun um framkvæmd einstakra atriða í yfirlýsingu þeirri sem gefin var út samhliða undirritun kjarasamninga:

Stjórn Eflingar – stéttarfélags fagnar yfirlýsingu stjórnvalda sem gefin var út samhliða undirritun kjarasamninga þann 3. apríl síðastliðinn. Stjórn Eflingar kallar eftir því að ríkisvaldið setji fram tímasetta áætlun um framkvæmd einstakra atriða úr yfirlýsingunni. Sérstaklega er áríðandi að lækkun skatta á lágtekjuhópa sé tímasett nákvæmlega og komi sem fyrst til framkvæmda, ekki síst í ljósi hófsamra launahækkana á fyrsta ári samningstímans.

Skrifstofa Eflingar opin lengur vegna atkvæðagreiðslu um kjarasamninga

$
0
0

Skrifstofa Eflingar verður opin til kl. 18.00 mánudaginn 15. apríl, þriðjudaginn 16. apríl og miðvikudaginn 17. apríl fyrir þá sem vilja koma og greiða atkvæði á pappír.

Skrifstofan í Hveragerði opin fyrir páska – hægt að kjósa

$
0
0

Skrifstofan í Hveragerði verður opin þriðjudaginn 16. apríl og miðvikudaginn 17. apríl frá kl. 8.15-16.00.

Hægt verður að greiða utankjörfundar atkvæði um nýjan kjarasamning við SA á skrifstofunni á þessum tíma.

Samið um launaþróunartryggingu fyrir starfsmenn hjá ríki og sveitarfélögum

$
0
0

Drífa Snædal, forseti ASÍ undirritaði í gær samkomulag um launaþróunartryggingu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Laun félagsmanna í aðildarfélögum ASÍ sem starfa hjá sveitarfélögum munu hækka um 1,7 prósent að meðaltali vegna samkomulagsins og laun félaga ASÍ sem starfa hjá ríkinu um 0,4 prósent að meðaltali. Launaþróunartryggingin er afturvirk og gildir frá 1. janúar 2019. Samkomulag þetta er mikilvægur liður í að tryggja að launaþróun félagsmanna hjá ríki og sveitarfélögum dragist ekki aftur úr launaþróun á almennum markaði.

Samkomulagið sem undirritað var í dag er gert á grunni rammasamkomulags aðila vinnumarkaðarins frá október 2015. Aðild að samkomulaginu eiga íslenska ríkið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Alþýðusamband Íslands, BSRB og Samtök atvinnulífsins.

Í rammasamkomulaginu er kveðið á um að launaþróun þeirra sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum verði ekki lakari en á almennum vinnumarkaði. Með því er ætlunin að tryggja að laun opinberra starfsmanna sitji ekki eftir í almennri launaþróun.

Horft er til þróunar launa á almenna markaðinum annars vegar og hjá þeim félagmönnum sem starfa hjá ríki og sveitarfélögum hins vegar á tímabilinu nóvember 2013 til nóvember 2018.

Aðalfundur Eflingar – stéttarfélags

$
0
0

Aðalfundur Eflingar 2019 verður haldinn mánudaginn 29. apríl kl. 20.00 í Austurbæ, Snorrabraut 37.

Dagskrá:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Önnur mál

Endurskoðaðir reikningar félagsins liggja frammi á skrifstofu Eflingar Guðrúnartúni 1, frá og með 23. apríl nk.

Félagar mætið vel og stundvíslega.

Stjórn Eflingar – stéttarfélags

Greiðslur úr Verkfallsjóði

$
0
0

Greitt verður úr Verkfallssjóði um mánaðarmótin apríl – maí.

Ef greiðsla berst ekki og viðkomandi telur sig eiga rétt á henni má hafa samband við skrifstofu Eflingar, efling@efling.is

Félagsmenn samþykkja kjarasamning við SA með miklum meirihluta atkvæða

$
0
0

Kjarasamningur Eflingar við Samtök atvinnulífsins, sem undirritaður var með fyrirvara um samþykki félagsmanna þann 3. apríl síðastliðinn, hefur verið samþykktur með miklum meirihluta félagsmanna í almennri atkvæðagreiðslu. Atkvæði meðal félagsmanna Eflingar féllu þannig:

  • Samþykktu samning: 1.516 (77,07%)
  • Höfnuðu samningi: 405 (20,59%)
  • Tóku ekki afstöðu: 46 (2,34%)

Af þeim sem tóku afstöðu samþykktu 79% samninginn, eða tæplega fjórir af hverjum fimm. Atkvæði greiddu 1.967 félagsmenn eða 10,16% af þeim 19.352 sem voru á kjörskrá. Atkvæði voru greidd bæði rafrænt og á pappír utan kjörfundar.

Á kjörskrá voru allir greiðendur iðgjalda sem störfuðu samkvæmt samningi Eflingar við SA í janúar og febrúar 2019, óháð starfshlutfalli, starfsaldri eða hvort viðkomandi hafi sótt um fulla félagsaðild að Eflingu.

Atkvæðagreiðsla stóð yfir 12.-23. apríl og var rafræn. Notast þurfti við Íslykil eða rafræn skilríki til að greiða atkvæði. Einnig var mögulegt að greiða atkvæði utankjörfundar og hafði skrifstofa Eflingar lengdan opnunartíma þrjá daga auk þess sem atkvæðum var safnað á vinnustöðum. Allir félagsmenn Eflingar fengu kynningarbækling á íslensku, ensku og pólsku sendan heim í pósti auk þess sem samningurinn var kynntur á opnum fundum og á vinnustöðum.

Samkvæmt kjarasamningnum munu öll taxtalaun hækka í þrepum um 90 þúsund á samningstímanum eða 30%. Samningstími er 3 ár og 8 mánuðir. Allar launahækkanir samningsins eru krónutöluhækkanir sem beinast að mestu til láglaunahópa umfram hærri tekjuhópa. Til viðbótar við hefðbundnar launahækkanir býður samningurinn upp á frekari launahækkanir sem tengdar eru við aukningu hagvaxtar á mann.

Aðkoma stjórnvalda að samningnum er veruleg, en fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar eru ígildi 15.900 kr. hækkunar mánaðarlauna og breytingar á barnabótakerfinu ígildi um 15.000 kr. hækkunar. Einnig kynntu stjórnvöld víðtækar aðgerðir í húsnæðismálum og fleiri málaflokkum í tengslum við samninginn.

Í samningnum eru forsenduákvæði sem heimila uppsögn samnings verði skilyrðum um lækkun vaxta, kaupmáttaraukningu og aðkomu stjórnvalda ekki mætt.


1. maí 2019

$
0
0

Sýnum samstöðu okkar í verki og mætum á baráttufund þann 1. maí. Yfirskrift fundarins í ár er Jöfnum kjörin – samfélag fyrir alla.

Safnast verður saman á horni Laugavegar og Snorrabrautar klukkan 13:00 en kröfugangan leggur af stað kl. 13:30. Lúðrasveit verkalýðsins og Lúðrasveitin Svanur leika í göngunni og einnig á Ingólfstorgi. Gengið verður niður Laugaveginn, Bankastræti, Austurstræti og niður á Ingólfstorg. Útifundurinn á Ingólfstorgi hefst kl. 14.10 og lýkur um kl. 15.00.

Ræðumenn á torginu verða þau Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar stéttarfélags og Sonja Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Fundarstjóri verður Þórarinn Eyfjörð en hann hefur stýrt fundinum síðustu ár. Tónlistaratriði verða í höndum Bubba Morthens og GDRN.

Öll dagskráin verður táknmálstúlkuð og sungið verður á táknmáli í tónlistaratriðum.

Þegar fundinum lýkur

  • Kaffið býður þín í Valsheimilinu

Að lokinni kröfugöngu og baráttufundi á Ingólfstorgi býður Efling-stéttarfélag upp á kaffiveitingar í Valsheimilinu að Hlíðarenda í Origo höllinni.

Að vanda verður boðið upp á veglegar kaffiveitingar. Ýmis afþreying verður í boði fyrir krakka, myndabox (photobooth), andlitsmálning og blöðrulistamaður.

Félagsmenn Eflingar eru hvattir til að fjölmenna í gönguna og taka þátt í hátíðarhöldunum og mæta í Valsheimilið þar sem ungir sem aldnir geta notið góðra veitinga og spjallað við vinnufélaga, vini og kunningja.

Varðandi launagreiðslur félagsmanna Eflingar-stéttarfélags 1. maí 2019

$
0
0

Nýr kjarasamningur gildir frá 1. apríl síðastliðnum.
Mánaðarlaun allra starfsmanna hækka um 17.000 kr. fyrir dagvinnu og lágmarkstekjur fyrir fullt starf hækka í 317.000 kr.

Tímakaup í dagvinnu hækkar um 98,08 kr/klst það er 17.000/173,33 en um 98,84 kr/klst fyrir þá sem fara eftir Kjarasamning SA og Eflingar vegna hótels- og veitingahúsa það er 17.000/172.

Orlofsuppbót 2019 og eingreiðsla sem álag á orlofsuppbót samtals að upphæð 76.000 kr. (50.000 + 26.000) greiðist eigi síðar en 2. maí 2019.

Aðalfundur Eflingar – krefjandi og lærdómsríkt ár

$
0
0

Aðalfundur Eflingar – stéttarfélags var haldinn í Austurbæ í gærkvöldi, 29. apríl. Fundurinn fór fram með hefðbundnu sniði og var mæting með ágætum.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar flutti skýrslu stjórnar þar sem hún fór yfir viðburðarríkt ár sem einkenndist öðru fremur af átökum á vinnumarkaði með hörðum samningaviðræðum og verkfallsaðgerðum. Sólveig Anna lýsti árinu sem bæði krefjandi og lærdómsríku þar sem unnið var markvisst að því að auka sýnileika félagsins og gefa því sterkari rödd í samfélaginu auk þess að efla þjónustu við félagsmenn og virkja þá til þátttöku í félagsstarfinu. Það hafi tekist með farsælum hætti og samstaða félagsmanna í þeirri vinnu sem átti sér stað hafi verið einkennandi.

Þá var lýst kjöri til stjórnar en endurnýjun er á um helmingi stjórnarmanna. Agniezka Ewa Piotrowska tekur við af Sigurrósu Kristinsdóttur sem varaformaður og Ólöf Helga Adólfsdóttir af Fanneyju Friðriksdóttur sem ritari. Úr stjórn gengu að auki Guðný Óskarsdóttir, Steinþór Ingi Þórsson, Jóhann Ingvar Harðarson og Hjördís Kristjánsdóttir. Nýir í stjórn eru Jóna Sveinsdóttir, Stefán E. Sigurðsson, Úlfar Snæbjörn Magnússon og Zsófía Sidlovits. Þorsteinn M. Kristjánsson situr áfram. Fráfarandi stjórnarmeðlimum var þakkað fyrir góð störf og þeir leystir út með blómvöndum.

Ársreikningur fyrir 2018 var kynntur og samþykktur samhljóða, sama er að segja um tillögu um breytingu á grein 11 c2 í sjúkrasjóðsreglugerð um hækkun dánarbóta, en þær hámarksupphæðir sem nú eru hafa verið bundnar í reglugerð í nánast tvo áratugi.

Undir dagskrárliðnum önnur mál var orðið gefið laust og báru félagsmenn fram spurningar um ýmis mál sem lúta að kjarasamningi og stuðningi við aldraða og öryrkja.

Fundi var síðan slitið og fundargestum boðið að njóta veitinga.

Fundarstjóri var Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar

Ársskýrsla Eflíngar

Kaffiboð eldri borgara 5. maí

$
0
0

Sunnudaginn 5. maí nk. verður kaffiboð fyrir Eflingarfélaga 70 ára og eldri haldið að Gullhömrum í Grafarholti. Húsið opnar kl. 13.30.

Efling – stéttarfélag býður gestum upp á kaffi og meðlæti, leikið verður fyrir dansi og söngatriði er einnig á dagskránni

Félagsmönnum er velkomið að bjóða með sér maka eða félaga, þó aðeins einn gest.

Enga miða þarf heldur verður nafnalisti við innganginn. Þannig þarf einungis að skrá sig.

Skráning í kaffiboðið verður fimmtudaginn 2. maí og föstudaginn 3. maí. Hægt verður að skrá sig með eftirtöldum hætti:

  • Rafrænt hér á heimasíðu Eflingar
  • Með því að hringja á skrifstofuna í síma 510 7570
  • Mæta á skrifstofu Eflingar og skrá sig þar

Athugið að engir miðar verða afhentir þar sem nafnalisti verður við innganginn.

Þar sem um takmarkaðan fjölda er að ræða gildir reglan fyrstir koma fyrstir fá.

Orlofsuppbót

$
0
0

Ef þú ert félagsmaður í Eflingu og starfar á almenna markaðinum átt þú að fá orlofsuppbót þessi mánaðarmót. Fyrir heilsársvinnu ættir þú að fá 76.000 kr.

Heilsársvinna þýðir að þú hafir unnið í fullu starfi 45 vikur á tímabilinu 1. maí 2018 til 30. apríl 2019.

Hafir þú unnið 12 vikur eða meira eða ert í starfi fyrstu vikuna í maí átt þú að fá greiðslu í samræmi við starfshlutfall og starfstíma.

Dæmi: Hafir þú unnið í 20 vikur átt þú að fá 20/45 af uppbótinni, sem eru 33.778 kr.

Orlofsuppbótin í ár er hærri (og greiðist út fyrr) vegna þess að ofan á vanalega uppbót, 50.000 kr., leggjast 26.000 kr. aukalega vegna undirritunar nýrra kjarasamninga við SA.

Kjarasamningurinn kveður á um að orlofsuppbótina eigi að greiða út í síðasta lagi fimmtudaginn 2. maí. Fáir þú ekki greiðslu sem þú telur þig eiga rétt á hafðu samband við skrifstofu Eflingar.

Samstaða er ekki bara í orði heldur líka á borði

$
0
0

Ræða Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, frá hátíðarhöldunum í gær.

Við komum hér saman, við sem höfum byggt upp samfélagið okkar, við sem viðhöldum því alla daga ársins. Við komum saman til þess að sýna samstöðu, hvort með öðru og með okkur sjálfum og til þess að sýna þeim sem halda að þeir eigi samfélagið; valda og auðstéttinni sem heldur að hún sé skapari himins og jarðar, sem heldur að hún eigi allt þetta sem við höfum byggt – auðstétt sem heldur að hún megi fara með allt þetta eins og henni sýnist, auðstétt sem með græðgi sinni kemur í veg fyrir efnahagslegt réttlæti, samfélagslegt réttlæti; við komum saman til þess að sýna þeim sem henni tilheyra að við erum mörg. Að við erum sterk. Að samstaða er ekki bara í orði heldur líka á borði.

VIð rísum upp, við risum upp í vetur, við sögðum: Við erum hér og þið skuluð venjast því, við erum hér, við höfum alltaf verið hérna, nú er tími þess að við verðum öllum sýnileg runninn upp, sjáiði sýnilegu vinnu-hendurnar okkar og sjáiði hvað gerist þegar við stingum þeim í vasann, og þau brjáluðust, talsmenn óbreytts ástands, talsmenn algjörra yfirráða hinna ríku, andlýðræðislegasta fólk á Íslandi brjálaðist; glæpafólk, landráðamenn, hyski!; við vorum úthrópuð fyrir að dirfast að segja að fólkið sem  býr um rúmin og fólkið sem keyrir strætó og rúturnar, vinnuaflið, væru alvöru manneskjur, lifandi manneskjur af holdi og blóði, með alvöru manneskjuréttindi, með rétt til að lifa frjáls, konurnar sem skúra voru ásakaðar um að vilja drepa Ísland; er ekki hægt að stoppa þessar klikkuðu þrjúhundruðþúsundkróna kellingar, þær hafa misst allt jarðsamband, græðgin í þeim mun drepa hagkerfið.

Forherðingin, firringin sem birtist okkur í vetur er vissulega ógeðsleg en við skulum samt fagna henni, þau sem hafa látið sem það væri náttúrulögmál að þau hafi endalaus völd til að ákveða lífsskilyrði okkar, afkomu, aðstæður voru opinberuð sem vanstilltir loddarar, og kerfið, arðránskerfið opinberaðist sem það sem það sannarlega er; kerfi tryllt óréttlætis sem fengið hefur að stigmagnast síðustu áratugi.

Við erum hér saman komin en sá tími er liðinn að við séum í baráttuhug aðeins einu sinni á ári.  Sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að bíða og biðja, sá tími er liðinn að við látum okkur nægja að fara bónleið til að kreista út þúsundkalla frá auðstéttinni; við erum hér og þau skulu venjast því, við erum hér og við ætlum að krefjast og berjast alla daga ársins, við ætlum að berjast fyrir því að okkar hagsmunir ráði för, við höfum verið látin draga vagninn, okkur hefur verið kennt að vinna og okkur hefur verið kennt að bíða, okkur hefur verið kennt að sætta okkur við það sem okkur er rétt en sá tími er liðinn.
Við ætlum ekki lengur að fórna tíma okkar og lífi, okkur sjálfum fyrir þjóðfélag þar sem fámenn yfirstétt greiðir sjálfum sér milljarða í fjármagnstekjur á meðan að fjöldi fólks fær aldrei um frjálst höfuð strokið, þar sem börn auðmanna fjárfesta í lúxusíbúðum á meðan að börn þeirra sem búa við ofbeldi skortsins eru á hrakhólum.
Við ætlum ekki lengur að fórna sjálfum okkur fyrir þjóðfélag sem byggir á óréttlæti og arðráni; nei, við ætlum að breyta þjóðfélaginu.

Velsæld okkar, raunveruleg velsæld samfélags þar sem þarfir fólks eru ávallt í fyrirrúmi byggir á jöfnuði, á efnahagslegu réttlæti. Jöfnuður býr til samfélag þar sem mannfólk hefur tíma og frelsi, raunverulegt frelsi, til að annast sjálft sig og börnin sín, frelsi til að njóta þeirrar einu tilveru sem okkur er úthlutuð, frelsi til að vaxa og dafna á eigin forsendum, frelsi undan kúgun vinnuþrælkunnar, frelsi undan því skelfilega efnahagslega ofbeldi sem dæmir börn til að lifa við fátækt.
Fyrir þessu ætlum við að berjast, sameinuð. Gegn arðráni og kúgun, fyrir frelsi og réttlæti.
Takk fyrir.

Baráttan snýst á endanum um frelsi

$
0
0

– segir Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar

Sólveig Anna Jónsdóttir, kom sem stormsveipur inn í íslenska verkalýðsbaráttu þegar hún og hennar listi vann yfirburðasigur í kosningum til stjórnar félagsins í apríl í fyrra. Hún fór frá því að starfa á leikskóla borgarinnar yfir í að stýra öðru stærsta stéttarfélagi landsins og standa í hörðum kjaraviðræðum og verkfallsátökum við SA. Nú þegar fyrsta starfsári hennar sem formaður er að ljúka er ekki úr vegi að setjast niður með henni og spyrja hana út í hvernig fyrsta árið hafi verið, um kjaraviðræðurnar og verkfallsátökin og eins hvaða breytingar hún vilji sjá í íslensku samfélagi til að verkafólk geti lifað mannsæmandi lífi.

Þegar Sólveig Anna tók við formennsku í Eflingu-stéttarfélagi hafði hún starfað á leikskólanum Nóaborg í að verða tíu ár. Aðspurð um muninn á starfi sínu nú og þá segir hún að það hafi í raun fylgt því ótrúlega mikið frelsi að vinna á leikskóla. „Það er ákveðið frelsi í samskiptum við börn, þetta eru innileg og náin samskipti, eins og góð mannleg samskipti eiga að vera. Það þarf að bregðast við þörfum lifandi fólks, taka ákvarðanir sem varða stóra hópa og gæta að réttlæti og sanngirni og því að jöfnuður ríki, þrátt fyrir að barnahópurinn sé samansettur af ótrúlega ólíkum manneskjum. Það þarf að gæta þess að öll börnin fái það sama, gæta þess að þörfum allra sé sinnt.“ Hún segir að í starfi með börnum, eins og í leikskóla, sé markviss þjálfun í þessum hugsunarhætti. „Það er líka ákveðið frelsi í því að eyða hluta af starfstímanum úti við, það er að mínu mati ómetanlegt sem og að fá að vera í söng, lestri, útiveru, listsköpun og hvíld með fullt af öðrum lifandi manneskjum.“ Hún segir að það hafi verið „litlu hlutirnir“ við starfið, það að aðstoða börnin að leysa úr vandamálum og verkefnum, vera í góðum félagslegum samskiptum og útkljá deilumál, sem hafi verið svo nærandi.

„Þetta er ástæðan fyrir því að ég elskaði vinnuna mína þó ég hataði launin og var reið út í þessa mannfjandsamlegu stefnu sem að borgin rekur, að halda að það væri hægt að komast upp með að sýna ekki starfsfólki þá virðingu sem það á sannarlega skilið og halda þessum störfum á útsölumarkaði.“ Sólveig
segir að miðað við nýjustu fréttir þá hyggist borgin ætla að halda sig við þá stefnu. Á hún þar við fréttir um að svokölluð áhættumatsdeild fjármálaskrifstofu borgarinnar spái versnandi afkomu í kjölfar falls Wow og samdrætti í rekstri. „Ég held að því miður verði ákveðið að skera niður þar sem síst má skera niður. Það er ekkert sem bendir til þess að borgaryfirvöld muni hafa hagsmuni vinnuaflsins í fyrirrúmi, þegar við horfum yfir síðustu ár. Góðærið sem fylgdi þessum mikla vexti í ferðamannabransanum var ekki notað til að tryggja betri afkomu láglaunakvenna í borginni, ekki notað til að bæta úr húsnæðiskrísunni. Þvert á móti var ráðist í alls konar lúxusverkefni þar sem engar reglur virðast gilda um útgjöld. Ég hef miklar áhyggjur af því að borgin og aðrir noti samdráttinn í efnahagskerfinu til að halda áfram með innleiðingu nýfrjálshyggjunnar. En þá skiptir auðvitað þeim mun meira máli að ég og félagar mínir stöndum okkur í því verkefni sem við höfum tekið að okkur.“

Það hafa því verið töluverð viðbrigði fyrir Sólveigu þegar hún tók við sem formaður. „Að fara úr þessum samskiptum við foreldra, samstarfsfólk og börn þar sem markmiðið allra var að tryggja góða útkomu yfir í að vera formaður stéttarfélags er ótrúlega mikil breyting.“ Hún segir að þó hún hafi verið búin að gera sér grein fyrir því að þetta yrði gífurleg breyting hafi alltaf verið og sé enn partur af henni sem er hikandi við þetta. „Ég tapa miklu af frelsi mínu, frelsi til að lifa bara á eigin forsendum en það er svo auðvitað það sem baráttan snýst á endanum um að mínu mati; alvöru manneskjulegt frelsi sem snýst um að vera í góðu sambandi við sjálfa þig og fá að blómstra frjáls undan vinnuálagi og áhyggjum, undan kapítalísku ofríki og auðvaldi.“

Sólveig Anna Jónsdóttir þegar hún var nýtekin við sem formaður Eflingar á aðalfundi félagsins í apríl í fyrra

Kjaraviðræðurnar voru langar og strangar en þeim lauk með undirritun samninga þann 3. apríl. En hvernig fannst Sólveigu að koma þar að borðinu? „Þetta var mjög áhugavert og brjálæðislega lærdómsríkt, að koma inn sem reynslulaus manneskja. Ég hef tekið þátt í félagsstarfi og alls konar aktívisma og er reynslumikil þaðan, en að vera svo komin við borð með raunveruleg völd er mjög skrýtið. Ég held að fólk geti ekki ímyndað sér það, það verður að upplifa það í eigin persónu.“ Eins og fyrr segir drógust viðræðurnar á langinn og var Efling í harðri baráttu á öllum vígstöðvum. „Það voru stöðugar árásir frá Fréttablaðinu og Morgunblaðinu, hatrammar og sturlaðar árásir þar sem ég og mitt samstarfsfólk var dregið upp sem eitthvað hryðjuverkafólk.“ Hún segir það að sumu leyti hafa á undarlegan hátt verið gefandi að fylgjast með þessari umræðu. „Það er áhugavert að sjá fólk sem tilheyrir valdastétt og fer með pólitískt dagskrárvald í samfélaginu, sem telur sig málsvara lýðræðis en opinberar afturhaldssinnaða afstöðu sína gagnvart láglaunafólki. Það er tilbúið að segja fólki að halda sig til hlés og taka við þeim brauðmolum sem efnahagsleg forréttindastétt skilur eftir.“ Sólveig segir að þetta geri ekkert annað en að opinbera innræti þessa fólks. „Við fengum að sjá hið sanna og rétta eðli nýfrjálshyggjunnar á Íslandi og það var fyrir mig sem áhugamanneskju um kúgunareðli auðvaldskerfisins í raun mjög spennandi.“

Í fyrsta sinn síðan á níunda áratug síðustu aldar fór Efling í verkfallsaðgerðir en aðgerðirnar tóku til fólks sem starfaði á hótelum og rútufyrirtækjum. „Það var stórkostlegt að sjá eldmóð og baráttuvilja fólks, þar sem sum hver eru ekki aðeins að berjast fyrir hærri launum og betri efnahagslegri afkomu heldur einnig fyrir lýðræði og að fá að taka þátt í ákvörðunum sem snúa að vinnu þeirra.“ Sólveig segir það hafa verið áfall að sjá með beinum hætti þann raunverulega aðskilnað sem ríkir á ýmsum vinnustöðum, á milli aðflutts verkafólks og Íslendinga. Hún hafi fyrir löngu verið farin að hugsa um stöðu aðflutts vinnufólks en að sjá með augljósum hætti bilið á milli aðflutts vinnuafls og Íslendinga í aðdraganda og í kjölfar aðgerðanna hafi engu að síður verið mjög afhjúpandi. „Ég varð t.d. vitni að því að á fundi hjá Kynnisferðum þar sem tilkynnt var um fjöldauppsögn að það var bara gert á íslensku þrátt fyrir stóran hóp starfsfólks af erlendum uppruna. Engin tilraun var gerð til að túlka. Ég varð eiginlega orðlaus við að verða vitni að svona framkomu. Að sjá refsiaðgerðir í kjölfar verkfallanna er auðvitað sérstaklega ógeðslegt. Þrátt fyrir að samningar hafi tekist voru engu að síður atvinnurekendur sem fundu sig knúna til að refsa starfsfólki, hafa mætingarbónus af fólki eða koma sér undan því að greiða þeim laun sem ekki voru á vakt verkfallsdagana og beina þeim á verkfallssjóðinn. Það stenst enga skoðun og hlýtur tilgangurinn að vera að senda skilaboð, bæði til starfsfólksins og okkar í félaginu um að þeir ætli sér ekki að spila eftir okkar leikreglum.“ Hún segir að baráttan snúist um leikreglurnar í samfélaginu, hverjir fái að ákveða þær.

Sólveig Anna Jónsdóttir og Anna Marta Marjankowska, í stjórn Eflingar, í Gamla Bíó á Kvennadeginum 8. mars sl.

„Við höfum þurft að sætta okkur við það að yfirstéttin, kapítalistarnir, setji alltaf reglurnar og hafi það vald, sem er óþolandi. Þeim stendur á sama um afkomu lágtekjufólks, þeir vilja aðeins aðgang að ódýru vinnuafli.
Við þurfum því að ákveða hvort við ætlum að halda áfram að berjast einbeitt og skipulögð fyrir því að fá að semja okkar eigin leikreglur og fyrir því að ákvarðanir verði ekki teknar nema að afkoma og tilvera verka- og
láglaunafólks sé alltaf höfð í fyrirrúmi. Það er augljóst að þær leikreglur sem hér hafa fengið að viðgangast eru útbúnar í þeim einum tilgangi að tryggja áframhaldandi yfirráð auðstéttarinnar og þess vegna ber okkur
að hafna þeim.“ Sólveig segir að þarna sé t.d hægt að horfa á skattkerfið á Íslandi og þróun þess. Efling hafi háð baráttu fyrir því að skattkerfið yrði sannarlega tæki til endurúthlutunar
gæðanna en það sé aðeins mögulegt með því að hafa skattbyrði verulega háa á fjarmagnstekjur og þá sem eiga mest. „Eins og Stefán Ólafsson og fleiri hafa bent á hefur þróunin verið akkúrat öfug, skattbyrðin hefur aukist á láglaunafólk í þeim einum tilgangi að létta henni af hátekjuhópnum og þó munurinn á tekjum fólks sé kannski ekki mikill á Íslandi í alþjóðlegum samanburði þá er eignadreifingin aftur á móti mikil og grafalvarleg. Það er því merkilegur áfangasigur að fá þessa lækkun skattbyrðarinnar upp á 10.000 krónur fyrir lágtekjuhópana og við eigum að fagna því og hrósa okkur fyrir. Við hefðum aldrei náð þessari stefnubreytingu í gegn nema fyrir það að við vorum vakin og sofin að benda á þetta. Þetta var eitt af stóru málunum sem yrði að lagfæra ekki seinna en núna.“

Sólveig segir að það megi ekki gleyma því að verkföllin séu óumdeilanlegur réttur verkafólks til að knýja á um breytingar sökum þess að verkafólk áður hafi fært geigvænlegar fórnir. „Fólk vann óbærilega langan vinnudag, börnin voru notuð sem ódýrt vinnuafl, fólk hafði ekki aðgang að menntun, húsnæði, heilbrigðisþjónustu og bjó við lélegan kost. Það þurfti að þola svívirðingar og skepnuskap atvinnurekenda og yfirvalda en barðist og barðist og gafst aldrei upp. Þessi meðfædda þrá mannkyns að lifa í réttlæti er ódrepanleg, sama hverjir komast til að valda og hvaða tæki og tól eru notuð til að þrýsta fólki niður. Þá er það eðlislæg þrá manneskjunnar að lifa frjáls. Fólk er tilbúið til að færa fórnir ef það sér fyrir sér að takmarkið er betra og réttlátara líf.“

Hún segir að á tímum nýfrjálshyggjunnar hafi getan og leyfið til útópískrar hugsunar verið tekin af fólki. Það hafi átt að láta sig dreyma um þúsundkalla hér og þúsundkalla þar í stað þess að dreyma um grundvallarbreytingar á samfélaginu til að sleppa undan oki þeirra sem fara með völd. „Það er einn merkilegasti árangur nýfrjálshyggjutímans að við lærðum að sætta okkur við að stéttasamvinna væri eina leiðin, að til þess að fá eitthvað þyrftum við að sýna undirgefni og algjöran vilja til stéttasamvinnu. Draumurinn um eitthvað stórt og merkilegt, um raunverulegt frelsi var tekinn í burtu.“ Hún segir skammarlegt að hugsa til að þess að sjálft verkamannabústaðakerfið hafi verið lagt af. Þar var á einu augabragði horfið frá þeirri hugsun að það væri eðlileg krafa að öllum væri tryggt húsnæði á viðráðanlegu verði. „Ef við setjum húsnæðismálin, sem eru grundvallarmannréttindi, í hendurnar á markaðnum fáum við útkomuna sem við sjáum í dag. Fólk á hrakhólum, þúsundir búa í iðnaðarhúsnæði, þar af fjöldi barna sem hafa ekki einu sinni aðgang að hreinlætisaðstöðu, 900 manneskjur á biðlista eftir félagslegu húsnæði í borginni, þar af fjöldi einstæðra mæðra í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Vegna þessa glæpsamlega ástands fer risastór hluti ráðstöfunartekna láglaunafólks beint í vasann á einhverjum öðrum. Hér sjáum við grimmd auðvaldssamfélagsins með sem skýrustum hætti. Bara þetta dæmi sem snýr að húsnæðismálum, sýnir að ef við missum þessi grundvallarmál úr höndunum á okkur endum við á hrikalegum stað sem er mjög erfitt að komast af. Ef við leyfum því að gerast að fólk sem hefur sýnt og sannað að hagsmunir vinnuaflsins skipta það engu, að því er alveg sama hvort fólk sé í tveimur vinnum bara til að sjá fyrir sér og börnum sínum, fær áfram að hafa öll völd yfir lífi okkar veit ég ekki hvernig fer fyrir okkur. Þess vegna skiptir öllu máli að verkalýðshreyfingin og vinnuaflið standi föst fyrir. Tími þeirra sem hafa þessar mannfjandsamlegu hugmyndir um samfélag sem einhverskonar gróðastýrt fyrirtæki er liðinn. Við verðum að vera tilbúin til að leggja mjög mikið í sölurnar til að áframhaldandi pólitísk og efnahagsleg forréttindastétt sem hugsar aðeins um hagsmuni þeirra ríku komist ekki upp með að hafa öll völd á landinu.“

Það var mikil baráttugleði í verkföllum Eflingar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna þann 8. mars sl.

Að lokum berst talið að nýundirrituðum kjarasamningi sem Sólveig kallar vopnahléssamning. „Við náðum mörgu sem við börðumst fyrir í gegn og það sem ríkisvaldið kom með að borðinu að lokum skipti auðvitað
miklu máli. Með baráttu okkar knúðum við það fram að stjórnvöld urðu að mæta kröfum okkar að einhverju leyti og viðurkenna að þeim bæri skylda til þess að taka í taumana á húsnæðismarkaði og á fleiri stöðum. Það er að mínu mati mikill pólitískur sigur. En þetta er vopnahléssamningur, við erum vakin og sofin áfram í þessari baráttu.“

„Í aðdraganda 1. maí verðum við að minna okkur sjálf á að á meðan við búum í þessu kerfi þar sem valdaójafnvægi milli fólks er svo augljóst og svo gífurlega mikið, þar sem verkafólk hefur enga lýðræðislega stjórn yfir vinnustöðum sínum, þar sem það verður einfaldlega að vinna til að lifa og hefur í raun bara þetta eina hlutverk; að selja aðgang að vinnuafli sínu og láta sér það nægja sem því er afhent, þá mun kerfið stýra tilveru okkar. Ef við ákveðum ekki sameinuð að við viljum breytingar, þá munum við verða föst í því að heyja alltaf sömu baráttuna, sem snýst um grundvallar mannréttindi, eðlilegan vinnutíma, húsnæði og laun sem duga til að komast af. Þetta er ástæðan fyrir því að 1. maí er ennþá þessi mikli baráttudagur um heim allan. Á meðan andstæðurnar eru svona ótrúlega miklar á milli þeirra sem eiga atvinnutækin og fjármagnið, eiga í raun allt samfélagið og svo þeirra sem tilheyra stétt vinnuaflsins og eru föst í kerfi sem byggir á misskiptingu og arðráni, eigum við engra annarra kosta völ en að halda áfram að berjast.“


Gleðin ríkti á vorfagnaði

$
0
0
Það var mikil gleði á vorfagnaði Eflingar þegar eldri félagsmenn mættu saman í hið árlega kaffiboð félagsins í Gullhömrum þann 5. maí sl. Hljómfagrir tónar mættu félagsmönnum og gestum þeirra þegar þeir mættu í hús því eins og fyrri ár spilaði Kristján Guðmundsson á flygilinn. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ávarpaði félagsmenn og var vel tekið. Sigríður Thorlacius söngkona tók síðan nokkur vel valin lög áður en byrjað var á glæsilegum veitingum. Að endingu hélt Ingólfur Þórarinsson eða Ingó Veðurguð uppi stuðinu en hann leiddi fjöldasöng og tók salurinn vel undir.

Efling mótmælir hópuppsögnum á hótelum Árna Vals Sólonssonar

$
0
0

Efling hefur sent hótelstjóranum Árna Val Sólonssyni erindi vegna ólöglegra hópuppsagna á hótelunum Capital-Inn, City Park Hotel og City Center Hotel sem hann rekur undir mismunandi kennitölum.

Í lok apríl, rétt eftir samþykkt nýrra kjarasamninga, sendi Árni Valur erindi á allt starfsfólk þar sem þess var krafist að það undirritaði uppsögn á starfskjörum sínum. Þau gætu valið að vera endurráðin á nýjum launakjörum, hönnuð „með það að markmiði að lækka launakostnað“. Ef þau samþykktu ekki á staðnum var það álitið jafngilda uppsögn. Nokkrum starfsmönnum hefur þegar verið sagt upp á grundvelli þessara afarkosta.

„Þetta er að okkar mati fullkomlega siðlaust athæfi,“ segir Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar. „Við erum nýbúin að undirrita kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins, sem fyrirtæki Árna eru aðilar að. Þeir samningar byggja á því að hækka laun og bæta kjör fólks. Blekið er ekki þornað á samningnum þegar hann reynir svo að svíkja starfsfólk sitt um þær kjarabætur. Þar að auki er ákvæðum laga um hópuppsagnir ekki fylgt.“

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Árni Valur og framferði hans kemur við sögu Eflingar. Í október síðastliðnum uppgötvuðu eftirlitsfulltrúar Eflingar og annarra stéttarfélaga að Árni stóð í framkvæmdum við viðbyggingu á hóteli sínu City Park Hotel í Ármúla án tilskilinna leyfa. Vinnueftirlitið lokaði vinnustaðnum því þar var talin „veruleg hætta“ fyrir „líf og heilbrigði starfsmanna“. Byggingarfulltrúi ákvað líka að stöðva framkvæmdina fyrir sitt leyti vegna skorts á byggingarleyfi.

Þegar Efling hóf undirbúning fyrir hótelþernuverkfall 8. mars síðastliðinn reyndi Árni Valur að tálma þátttöku starfsmanna sinna í atkvæðagreiðslu. Í viðtali við Vísi útskýrði hann hvers vegna: „Ég veit að vel flestir ef ekki allir af mínum starfsmönnum vilja ekki fara í verkfall.“

Þegar kom að verkfalli þann 22. mars urðu verkfallsverðir Eflingar vitni að afleiðingum þessarar framkomu hótelstjórans. „Hann tók þar á móti okkur og starfsfólk var þar vinnandi,“ segir Ragnar Ólason, sviðsstjóri kjaramála. „Hann sagði að það kæmi okkur ekki við, þau væru ekki í Eflingu.“ Umrætt starfsfólk vann störf sem heyra undir kjarasamning Eflingar við SA og var því um verkfallsbrot að ræða.

Í erindi sínu til Árna Vals bendir Efling á fleiri vafasöm atriði í uppsagnarbréfinu sem kunna að varða við lög, til dæmis „nýtt yfirgreiðslufyrirkomulag“ sem á að miðast við „stéttarfélagsaðild“. Einnig er bent á að þeir ráðningarsamningar sem sagt var upp hafa margir óregluleg og teygjanleg starfshlutföll, upp á til dæmis „80-100%“, sem ekki stenst ákvæði kjarasamninga.

Forsvarsmönnum umræddra hótela hefur verið veittur 7 daga frestur til að bregðast við og draga ólögmætar uppsagnir sínar til baka. Efling áskilur sér allan rétt til launakrafna á hendur hótelunum fyrir hönd starfsfólks í samræmi við lög og kjarasamninga.

Afrit af bréfinu var sent til Samtaka atvinnulífsins og óskað eftir viðbrögðum.

Erindi Eflingar til hótela Árna Vals Sólonssonar dags. 8. maí 2019.

Nú er komið að lífeyrisþegum

$
0
0

Í kjöl­far lífs­kjara­samn­ing­anna spyrja margir hvað verði um lífs­kjör líf­eyr­is­þega. Til að ávinningur samninganna skili sér til lægst launuðu lífeyrisþeganna þarf að hækka lífeyri almannatrygginga til jafns við lægstu taxtana segir Stefán Ólafsson í nýlegri grein á Kjarnanum.

Það væri alvar­legt stíl­brot á frammi­stöðu rík­is­stjórn­ar­innar ef hún myndi nú bregð­ast líf­eyr­is­þegum og ekki veita þeim ávinn­ing lífs­kjara­samn­ings­ins til fulls.

For­sæt­is­ráð­herr­ann hlýtur að sjá til þess að engin van­höld verði á því að skila ávinn­ingi lífs­kjara­samn­ings­ins til fulls til lægst laun­uðu líf­eyr­is­þeg­anna, þ.e. þeirra sem mest stóla á almanna­trygg­ing­ar. Það væri einmitt gert með því að hækka líf­eyri almanna­trygg­inga til jafns við lægstu taxt­ana. Þingið þarf að afgreiða það fyrir sum­ar­frí og láta hækk­un­ina gilda frá 1. apr­íl segir Stefán.

Sjá grein Stefáns á Kjarnanum.

Er trúnaðarmaður á þínum vinnustað?

$
0
0

Trúnaðarmenn eru augu og eyru stéttarfélagsins á hverjum vinnustað og gegna mikilvægu hlutverki við að gæta þess að öllum réttindum og skyldum skv. kjarasamningi sé fylgt. Það er mikilvægt að það sé að minnsta kosti einn trúnaðarmaður á hverjum vinnustað þar sem vinna fleiri en fimm, einhver sem samstarfsmenn treysta og geta leitað ráða hjá ef þarf.

Ef þig langar að gerast trúnaðarmaður á þínum vinnustað eða vilt að við komum og aðstoðum við trúnaðarmannakosningu þá máttu endilega hafa samband við Félagssvið Eflingar á felagssvid@efling.is eða í síma 510-7500.

Skrifstofa Eflingar opnar 9.15 miðvikudaginn 15. maí

$
0
0

Miðvikudaginn 15.maí opnar skrifstofan kl. 09:15 vegna starfsmannafundar.

Beðist er velvirðingar á óþægindum sem þetta kann að hafa í för með sér

Viewing all 1268 articles
Browse latest View live